Innlent

Skemmdir á bílum daglegt brauð: "Þessi heiði er alveg skelfileg“

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Harpa hefur slæma reynslu af akstri um veginn. Hún segir ekkert hafa verið gert fyrir hann í mörg ár.
Harpa hefur slæma reynslu af akstri um veginn. Hún segir ekkert hafa verið gert fyrir hann í mörg ár. Mynd/Harpa
„Það hefur ekki verið hirt um þennan veg í svo mörg, mörg ár,“ segir Harpa Matthíasdóttir, íbúi á Fossi við Arnarfjörð en mynd sem hún setti inn á netið af þjóðvegi að heimili hennar hefur vakið athygli. Þar spyr hún hvort það sé sanngjarnt að íbúar á Vestfjörðum sitji uppi með vegi af þessu tagi þegar þau borga sömu skatta og bifreiðagjöld og allir aðrir. 

Myndin sýnir að vegurinn er markaður djúpum holum sem gera akstur um hann erfiðan. „Það er vont að keyra svona veg, maður lærir með árunum að sveigja framhjá steinum og holum en það gerir ekki fólk sem ekki er vant.“ Harpa segir veginn aðeins dæmi um marga vegi á Vestfjörðum sem Vegagerðin hefur leyft að sitja á hakanum undanfarin ár. 

Harpa segist oft lenda í því að bíll hennar skemmist þegar hún keyrir þennan tiltekna veg. „Þessi heiði er alveg skelfileg.“ En vegurinn liggur upp á Trostansfjarðarheiði.Skemmdir á dempurum eru hvað algengastar en einnig veit hún til þess að sprungið hafi á dekkjum hjá fólki sem um hann ekur auk þess sem bílar hafa oltið vegna þess að erfitt er fyrir bíla að mætast. „Það var einn bíll í sumar sem sprengdi tvö dekk. Þeir þurftu að bíða í óratíma,“ útskýrir Harpa en mennirnir í bílnum voru ferðamenn sem óvanir eru vegum af þessu tagi.

„Ég er búin að þurfa að laga demparana að aftan og samt keyri ég varlega. Þetta stútar alveg dempurum. Síðast þegar ég fór þá mölvaðist spyrnugúmmí alveg í heilu lagi úr. Ég fékk svo rosalegt högg og það skrölti í öllu hjá mér. Ég hélt að ég væri búin að stórskemma eitthvað.“ Hún segir að ef ökumaður hyggist ekki skemma bílinn sinn þá sé nauðsynlegt að aka veginn á aðeins 30-40 kílómetra hraða.

Myndinni deildi Harpa á Facebook og hefur hún fengið mikil viðbrögð. Harpa telur það eiga rætur sínar að rekja til þess að fólk sé orðið langþreytt á aðstæðunum.Mynd/Harpa
Enginn vilji til þess að bæta veginn á svæðinu

„Mér blöskrar þetta svo af því að svo hef ég líka búið í bænum og þar er allt til alls. Það eru meira og minna malbikaðir vegir út um allt land. En eins og núna í sumar hefur Vegagerðin ekki einu sinni heflað veginn. Hann var alltaf heflaður einu sinni, nú eru þeir hættir því líka.“

Hún segir sumstaðar hjólför vera komin svo langt frá miðju vegarins að þau séu nánast út fyrir veginn. „Það er alveg svakalega hættulegt. Sérstaklega fyrir fólk sem er ekki vant þessu.“

„Vegagerðin segir að það sé ekki til nægjanlegt fjármagn. Málið er að það getur bara ekki verið rétt því að það er til nóg fjármagn til að setja í vegi annars staðar. Það er bara enginn vilji fyrir því að bæta veginn hér á þessu svæði og hefur ekki verið í 20 ár.“

Eins og Fréttablaðið greindi frá í dag var fallið frá þeim milljarði sem leggja átti í viðhald vega á landinu en í stað þess var lagt 850 milljón króna viðbótarframlag í nýframkvæmdir. Hreinn Haraldsson, vegamálastjóri, hefur áhyggjur af viðhaldi vega á landinu öllu. „Það er sérstaklega þetta viðhaldsleysi sem er farið að koma niður á endingu veganna sem við lítum alvarlegum augum. Það getur að auki komið niður á öryggi vegfarenda,“ sagði hann í samtali við Fréttablaðið. Hann segist fá margar kvartanir um skemmdir á bílum vegna þess að vegir eru ekki nógu góðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×