Innlent

Skelkuð hryssa hífð upp úr vatnsbóli

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hryssan barðist nokkuð um þegar björgunarsveitarmaður kom poka undir hana svo hægt væri að hífa hana upp.
Hryssan barðist nokkuð um þegar björgunarsveitarmaður kom poka undir hana svo hægt væri að hífa hana upp. Mynd/Sigfús Heiðar
Meðlimir Björgunarfélagsins Blöndu á Blönduósi stóðu í ströngu í gær þegar þeir björguðu hryssu sem fallið hafði í vatnsból við bæinn Kagaðarhól í Svínadal í Austur-Húnavatnssýslu.

Sigfús Heiðar Árdal, formaður Blöndu, segir að björgunin hafi gengið vel.

„Við komum þarna sex úr björgunarfélaginu, við erum allt vanir hestakallar og höfum áður þurft að bjarga hrossum úr svipuðum aðstæðum. Björgunin sjálf tók því ekki nema um 20 mínútur þegar við vorum komnir á staðinn,“ segir Sigfús.

Hryssan var ekki alvarlega slösuð og bar sig nokkuð vel þegar hún kom úr vatnsbólinu. Mynd/Sigfús Heiðar
Aðspurður segir hann ekki víst hvenær hryssan hafi dottið ofan í vatnsbólið en líklegast hafi það gerst á aðfaranótt miðvikudags. Girða á í kringum það um helgina svo svona endurtaki sig ekki.

Hryssan var ekki alvarlega slösuð, segir Sigfús. Hún hafi verið með fleiður á hnjánum þar sem hún hafi reynt að komast upp úr vatnsbólinu en grunnur þess er steyptur.  

„Hryssan var nokkuð hrædd og barðist um þegar við reyndum að koma henni í pokann svo hægt væri að hífa hana upp úr vatnsbólinu.“ Hún hafi þó verið frekar hress og farið strax á beit eftir að henni var bjargað. Sigfús segir að síðan hafi verið farið með hana í hesthúsið þar sem dýralæknir hafi ætlað að koma og kíkja á hana.

Hér að neðan má sjá myndband af björguninni sem fengið er af Facebook-síðu Sigfúsar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×