„Við erum að verða jafnspenntir og þið,“ segir Daníel Guðjónsson, yfirlögregluþjónn á Akureyri, sem Vísir hefur verið í reglulegu sambandi við undanfarna rúma tvo mánuði. Hann segir í raun aðeins beðið eftir niðurstöðu krufningar en í kjölfarið verði það sent til ríkissaksóknara.
Tveir menn, feðgar sem bjuggu í húsinu á Hvammstanga þar sem Krzeczkowski fannst, eru grunaðir um að hafa banað honum aðfaranótt sunnudagsins 15. júní. Sæta þeir farbanni. Fjórir voru í fyrstu handteknir en tveir þeirra liggja ekki undir grun.

Jón Gunnlaugur Jónasson, yfirlæknir rannsóknastofu í meinafræði, segir margt spila inn í hvers vegna langan tíma geti tekið að fá niðurstöður úr krufningum sem eru tvenns konar; réttarkrufning og spítalakrufning. Réttarkrufningar eru unnar fyrir lögregluyfirvöld og geta t.d. verið morðrannsóknir, sjálfsvíg og umferðarslys.
„Sjálf krufningin er í rauninni gerð tiltölulega fljótlega eftir andlát,“ segir Jón Gunnlaugur. Það taki í raun aðeins nokkra daga. Svo taki aðrir hlutir lengri tíma áður en hægt er að senda frá sér lokaskýrsluna.
„Tilgangurinn er að reyna að leiða í ljós þá atburðarás sem leiðir til andláts,“ segir Jón Gunnlaugur um réttarkrufningar. Taka þarf sýni úr líffærum, vinna þau til smásjárrannsókn, framkvæma efnamælingar og lyfjarannsóknir á sýnum bæði úr blóði og vefjum.
„Ítarleg greining á sýnum geta tekið allt að þrjá mánuði.“
Um sérfag sé að ræða, réttarmeinafræði, og aðeins einn Íslendingur hafi sótt sér þá menntun. Sá læknir hafi hins vegar starfað í Bandaríkjunum undanfarin átta ár. Tveir þýskir réttarmeinafræðingar starfa fyrir Landspítalann. Önnur hefur verið í fullu starfi frá áramótum en hin er í hálfu starfi. Er hún tvær vikur á Íslandi og tvær vikur í Þýskalandi.
Jón Gunnlaugur segir að reynt sé að hraða þeim málum sem beðið er eftir. Hins vegar hafi á síðasta ári aðeins einn starfsmaður gegnt hlutverki réttarmeinafræðings og verkefnin hafi hlaðist upp. Finna megi ársgamlar krufningar sem enn eigi eftir að afgreiða.
„Halinn sem var orðinn hefur styst verulega á meðan við höfum verið með þær tvær,“ segir Jón Gunnlaugur sem á við réttarmeinafræðingana þýsku. Sú í fullu starfi mun hverfa til síns heima í lok árs en Jón Gunnlaugur er bjartsýnn á að annar fáist í staðinn. Það hjálpi til að erlendir meinafræðingar sýni Íslandi það mikinn áhuga að hægt sé að fá þá til starfa hér á landi þó til skamms tíma sé.