Innlent

Bakpokaferðamenn miseyðslusamir

Heimir Már Pétursson skrifar
Mjög misjafnt er hversu miklu ferðamenn sem gista á tjaldstæðinu í Laugardal eyða miklum peningum á ferðalagi sínu til Íslands, samkvæmt lauslegri og óvísindalegri könnun fréttastofunnar í dag.

Ein ódýrasta leiðin til að ferðast á Íslandi er auðvitað að fara á puttanum og tjalda eins og fjölmargir ferðamenn gera t.d. í Laugardalnum.

En þótt ferðamenn tjaldi þarf það ekki endilega að þýða að þeir eyði minna en aðrir ferðamenn þótt vissulega séu líkurnar meiri til þess. En miðborgarstjóri og fleiri hafa sagt að Íslendingar þurfi meira af eyðslusömum ferðamönnum. Dieter frá Þýskalandi, kona hans og sonur hafa verið hér í tvær vikur. Hann reiknar með að þau eyði um þrjú þúsund evrum, eða um 480 þúsund krónum.

Robert kemur frá Bandaríkjunum og hefur verið í vísindaferð um Vestfirði í einn mánuð. En þótt hann hafi meira og minna dvalið í felti allan tíman reiknar hann með að eyða um 2.500 bandaríkjadollurum, eða um 290 þúsund krónum.

Tvær franskar stelpur sem urðu á vegi fréttastofunnar, Vanessa og Cindy,  eru dæmigerðir bakpokaferðamenn, þótt þær hafi leigt sér bíl í einn dag af þeim tíu sem þær verða í landinu. Þær reikna ekki meða að eyða miklum peningum á Íslandi, segjast ferðast ódýrt. Einu útgjöldin sé einstaka rútuferðir og svo matur.

Hópur breskra krakka er hér í skipulagðri þriggja vikna ferð æskulýðssamtaka en tekst samt að eyða nokkrum peningum. Erin segir að þótt þótt matur sé innifalinn í ferðinni, eyði þau töluvert af peningum í „alvöru mat, hamborgara og pizzur,“ eins og hún orðaði það. Matthew í sama hópi reiknar með að hann muni ekki eyða meiru en 50 pundum, eða tæpum tíu þúsund krónum, á meðan á dvöl hans stendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×