Innlent

Líkir hættulegum gatnamótum við rússneska rúllettu

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Formaður Skipulags- og byggingaráðs Hafnarfjarðarbæjar líkir gatnamótum skammt frá álverinu í Straumsvík við rússneska rúllettu. Vegagerðin verði að flýta framkvæmdum við mislæg gatnamót Reykjanesbrautar og Krísuvíkurvegar.

Það mæðir mikið á gatnamótunum við Rauðhellu í Hafnarfirði sem tengir stærsta iðnaðarsvæði Hafnarfjarðar við Reykjanesbrautina. Umferðin um gatnamótin er þung en daglega aka um 15 þúsund bílar í gegnum gatnamótin. Ólafur Ingi Tómasson er formaður Skipulags- og byggingaráðs Hafnarfjarðarbæjar og telur hann mikla mildi að ekki hafi orðið alvarleg slys á þessu svæði.

„Þeir segja sumir að þetta sé eins og að vera í rússneskri rúllettu þegar umferðin er sem mest og það þarf að beygja til vestur inn á Reykjanesbrautina. Aðreinin til austurs er alls ekki nógu góð. Því miður þá eru þetta ekki boðleg gatnamót,“ segir Ólafur Ingi.

Vilja ljós eða hringtorg

Hafnarfjarðarbær hefur farið þess á leit við Vegagerðina að finna lausn á því hvernig daga megi úr slysahættu við gatnamótin. Möguleikarnir sem taldir eru vera í stöðunni eru að koma upp ljósakerfi eða jafnvel að gatnamótunum verði breytt í hringtorg. Ólafur Ingi gagnrýnir Vegagerðina fyrir framkvæmdaskort.

„Síðustu stóru vegaframkvæmdirnar í Hafnarfirði voru árið 2003 þegar Reykjanesbrautin var flutt suður fyrir kirkjugarðinn en síðan hefur lítið gerst í vegamálum,“ segir Ólafur Ingi.

Mislæg gatnamót Krísuvíkurvegar og Reykjanesbrautar eru á dagskrá árið 2018. „Það er alltof seint fyrir okkur,“ bætir Ólafur Ingi við. „Við erum með vaxandi íbúabyggð og iðnaðarhverfi. Til að þessi svæði geti þróast á eðlilegan hátt þá þurfa þau að vera með góða tengingu við stofnbrautir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×