Innlent

Hjón lánuðu ókunnugri fjölskyldu nýjan jeppa svo hún kæmist á ættarmót

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Hér er Agnes á ættarmótinu í Bolungarvík.
Hér er Agnes á ættarmótinu í Bolungarvík. Mynd/Úr einkasafni
Einstök góðmennska hjóna frá Borgarnesi bjargaði ferðalagi fjölskyldu Agnesar Guðjónsdóttur og Gunnars Sigurðarsonar í síðasta mánuði. Þau voru á leið til Bolungarvíkur á ættarmót ásamt þremur börnum sínum. „Búin að pakka öllu, smyrja nesti og fleira,“ útskýrir Agnes.

Bíll Agnesar og Gunnars bilaði þegar þau voru að keyra upp Bröttubrekku, með öll þrjú börnin sín með sér. Agnes fjallaði um málið á Facebook-síðu sinni og segir svo frá aðstæðum:

„Okkur tókst að láta bílinn renna og keyra til skiptis að bílastæðinu við Grábrók. Við vissum ekki hvað við áttum að gera, börnin orðin pirruð og enginn gat hjálpað. Við hringdum í TM og spurðum hvort þeir væru með einhverja bílaneyðarþjónustu en svo var ekki, hins vegar var Völundur nokkur sem sá um tjónabílana hjá þeim með dráttarbíl og fengum við númerið hjá honum. Völundur svaraði og sagðist geta flutt bílinn og um leið allan mannskapinn þegar hann heyrði hvað við værum mörg - hann fékk bara konuna sína til að koma á þeirra privat jeppa til að sækja okkur.“

Þegar komið var í Borgarnes hófst leit að bifvélavirkja. Í samtali við Vísi segir Agnes frá því hvernig Völundur, sem sótti fjölskylduna, reyndi að koma þeim að víða. „Hann þekkti bifvélavirkjana í bænum og reyndi að koma okkur framfyrir aðra, svo við gætum farið á ættarmótið. Hann keyrði okkur á milli verkstæða og reyndi allt sem hann gat.“

Kona Völundar, sem heitir Signý, var einnig hjálpsemin uppmálið, að sögn Agnesar:

„Kona Völundar var miður sín vegna þessa og bauðst til að „skutla" mér og börnunum til Reykjavíkur. Ég sagði að það væri allt of mikið og við gætum örugglega reddað okkur en þakkaði henni fyrir. Fór hún þá og ræddi við Völund og kom svo aftur til mín og sagði: þið takið bara bílinn! Og farið á ættarmót. Það er ekki hægt að þið séuð búin að smyrja nesti og plana alla ferðina og svo fara ekki!

Ég horfði stórum augum á konuna og sagði: takk fyrir en ég get ómögulega þegið þetta, ég veit ekki einu sinni hvað þú heitir. Eg heiti Signý og jú ég tek ekki annað í mál. Ég þakkaði fyrir með tárin í augunum og spurði hvað hún vildi fá greitt fyrir? Hún horfði á mig og sagði: heldur þú að ég sé að gera þetta til að fá greitt!!! Kemur ekki til greina. Þið eruð með 3 litil börn og eruð í vandræðum, þegar svoleiðis gerist þá hliðrar maður bara til.“


Gunnar Sigurðarson er maður Agnesar.
Allir geta lært af Signýju og Völundi

Agnes segir að allir geti lært af hjónunum úr Borgarnesi. „Já, nú verður maður bara að reyna að vera eins og þau. Þetta er eitthvað sem maður mun ekki gleyma. Þetta var alveg einstakt. Við erum svo þakklát. Þau eru búin að hækka rána í góðmennskunni. Nú þarf maður bara að fylgja þeirra fordæmi,“ segir Agnes þakklát.

Fjölskyldan komst á ættarmótið og vakti nýji jeppinn mikla athygli þar. „Við vorum þarna á eiginlega nýjum Kia Sportage jeppa, hann hefur verið í mesta lagi tveggja ára. Þau réttu okkur bara lyklana. Og tóku ekki annað í mál en að við færum. Gunnar maðurinn minn spurði hvort að þau vildu nú ekki fá símanúmerið okkar, en þau bentu bara á að við værum með númerið þeirra og báðu okkur bara að hringja þegar við værum á leiðinni aftur heim frá Bolungarvík,“ útskýrir hún.

Agnes segir að á heimleiðinni hafi þau hringt í hjónin og spurt hvort það væri í lagi að Gunnar skutlaði Agnesi og börnunum heim til Reykjavíkur. „Þá vildu þau bara fá að fylgja okkur til Reykjavíkur. Þau sögðust þurfa að útrétta eitthvað í borginni, en ég held að þau hafi bara viljað vera ennþá hjálpsamari,“ segir hún hlæjandi og heldur áfram:

„Ekki nóg með að lána okkur bílinn, heldur vildu þau meira að segja líka hjálpa okkur að bera farangurinn inn úr bílnum. Og við búum á þriðju hæð. Þetta er alveg einstakt fólk, þau völundur og Signý. Maður veit eiginlega ekki hvað maður getur sagt. Mér finnst bara að allir eigi að vera góðir við Völund og Signýju frá Borgarnesi.“

Skrif Agnesar má sjá hér að neðan. Þau hafa vakið mikla athygli og hefur fjöldi manns deilt sögunni af björgun Völundar og Signýjar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×