Innlent

Rekstur Veðurstofu Íslands í jafnvægi

Samúel Karl Ólason skrifar
Aðsend mynd
Rekstur veðurstofunnar er í jafnvægi og afkoma í samræmi við rekstraráætlun ársins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofunni. Þar segir að frávik frá gjaldaheimildum sé um 0,4 prósent.

„Fjárhagsstaða Veðurstofunnar hefur verið til umfjöllunar í fréttum undanfarna daga í tengslum við störf fjárlaganefndar Alþingis. Tekið skal fram að rekstrarstaða Veðurstofunnar er í jafnvægi og er frávik frá gjaldaheimild óverulegt eða um 0,4% og afkoma í samræmi við rekstraráætlun ársins, samþykktri af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, sem hefur reglubundið eftirlit með rekstrarstöðu stofnunarinnar.“

Þá segir að rekstur Veðurstofunnar sé að miklu leyti fjármagnaður með sértekjum eða um 60 prósent af heildarfjármögnun stofnunarinnar.

„Má þar nefna þjónustu við alþjóðaflugið, Ofanflóðasjóð og þjónustu- og rannsóknarverkefni. Vegna þessa er dreifing tekna innan ársins ójöfn og er reynt að gera ráð fyrir því í greiðsluáætlun ársins.“

Nýleg umfjöllun hefur verið byggð á ársfjórðungsstöðu yfir fjárreiður ríkissjóðs. Í tilkynningunni segir að ekki hafi verið búið að færa allar sértekjur fyrstu sex mánuði ársins til tekna í bókhaldi stofnunnarinnar þegar staðan hafi verið tekin út.

Það útskýri frávikið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×