Innlent

Þurfa ekki að hlýða biðskyldu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hér má sjá þverakstur bíla yfir hjólastíginn.
Hér má sjá þverakstur bíla yfir hjólastíginn. Vísir/Daníel
„Merkingarnar eiga sér ekki stoð í umferðarlögum, strangt til tekið, enda er ekkert til sem heitir hjólastígar í lögunum,“ segir Jóhanna Björg Hansen, bæjarverkfræðingur Mosfellsbæjar, um umdeildar vegmerkingar á hjólastíg einum í bæjarfélaginu.

Á stígnum sem liggur um Háholt og Brautarholt eru merk­ing­ar sem marg­ir gætu túlkað sem biðskyldu hjól­reiðafólks þar sem svipaðar merk­ing­ar gera það á um­ferðargöt­um en í lög­um er skýrt að veg­far­end­ur um stíginn eiga for­gang.

Ökumenn sem ætla að aka yfir gangstétt út á akbraut eiga að bíða meðan vegfarendur fara fram hjá og hið sama á við um hjólafólk er fram kemur í 25. og 26. grein umferðarlaga.

Jóhanna segir að merkingarnar hafi fyrst og fremst verið settar þarna til að vara hjólreiðamenn við bílum sem koma af bílastæðinu en þeir fara þvert yfir hjólastíginn á leið sinni út á götuna. Erfitt geti reynst fyrir hjólreiðamenn á miklum hraða að bregðast við bílum sem koma fyrir húshornið og að landslagsarkitektar hafi viljað setja eitthvað til að vara við hættunni af þverakstri bílanna. Stæling á biðskyldutíglunum hafi einfaldlega orðið fyrir valinu því sambærilegar viðvörunarmerkingar fyrir hjól eru ekki til staðar.

„Hjólamenningin þróast einfaldlega hraðar en reglugerðirnar,“ segir Jóhanna og bætir við að hjólreiðafólki hafi fjölgað mikið á síðustu árum. „Hjólreiðamenn eru tiltölulega óvarðir fyrir tjóni sem getur hlotist af árekstri á miklum hraða og alvarleg hjólreiðaslys verða æ algengari. Kannski er veruleikinn jafnvel orðinn sá að við þurfum að líta til hraðatakmarkana á hjólreiðastígum,“ bætir Jóhanna við en undirstrikar að hjólreiðafólk sé ekki lagalega skylt til að fylgja merkingunum enda sé vegafarendum tryggður forgangur í umferðarlögum

Keimlíkar merkingar voru fjarlægðar af stíg við Suður­strönd á Seltjarn­ar­nesi í kjölfar óánægju vegfarenda og fréttaflutnings mbl.is í apríl síðastliðnum en samkvæmt upplýsingum fréttastofu hefur ekki verið formlega kvartað undan biðskyldutíglunum í Mosfellsbæ.

Mikil bílaumferð er yfir hjólastíginn.Vísir/Daníel
Vísir/Daníel



Fleiri fréttir

Sjá meira


×