Innlent

Ber um allt land

Birta Björnsdóttir skrifar
Nú fara margir að draga fram berjatínurnar og huga að berjum og þá er forvitnlegt að vita hvar besta berjasprettan er. Þorvaldur Pálmason, kennsluráðgjafi á menntavísindasviði Háskóla Íslands, er mikill berjaáhugamaður og hann segir sprettuna besta á norður- og austurlandi hvað aðalbláberin varðar.

„Á norðanverðu Snæfellsnesi og í Dölunum er einnig hægt að komast í góða bláberjasprettu, en bestu fréttirnar eru sannarlega á norður- og austurlandi hvað aðalbláberin varðar. En krækiber er að finna svo til hvar sem lyng er að finna á landinu. Það sagði mér einn suður með sjó að þar væri nóg að fara út á inniskónum til að komast í gott krækiberjaland," segir Þorvaldur.

Góðviðrið á suðversturhorninu undanfarna daga gæti þó haft áhrif á bláberjasprettu og mögulegt að hún taki við sér á næstu dögum.

Þorvaldur heldur úti heimasíðunni berjavinir.com, ásamt bróður sínum Konráði. Þar safna þeir saman fróðleik um berjasprettu, nýtingu berja og fjölmargt annað og hvetja sem flesta til að fylgjast með á heimasíðunni og á facebook.

Og Þorvaldur segir berin vera vannýtta auðlind.

„Krækiberin fara svolítið halloka þegar rætt er um ber, en þau koma næst á eftir aðalbláberjum þegar kemur að hollustu. Þau eru stútfull af andoxunarefnum og fleiri vítamínum og þau má finna um land allt."

Einhverjar reglur gilda þó fyrir þá sem hyggjast tína ber.

„Á lögbýlum er óheimilt að týna innan landamerkja en á óræktuðu landi á lögbýlum má hver sem er tína uppí sig eins og maður segir,” segir Þorvaldur en hann segir að það færist í vöxt að landeigiendur leigi út landsvæði sín til berjatínslu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.