Innlent

Alþjóðlegur dagur flóttabarnsins er í dag

Randver Kári Randversson skrifar
Frá Suður-Súdan
Frá Suður-Súdan Vísir/AFP
Alþjóðlegur dagur flóttabarnsins er í dag. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá UNICEF á Íslandi.

Um þessar mundir beinir UNICEF á Íslandi sjónum sínum að stöðu barna í yngsta ríki heims, Suður-Súdan. Neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir börn í Suður-Súdan hefur gengið vel og landsmenn fylkja sér á bak við þá hugsjón að öll börn eigi sama rétt til lífs og þroska, hvar svo sem í heiminum þau kunna að búa.

Í tilkynningunni kemur fram að meira en hálf milljón barna hafa lagt á flótta eftir að blóðug átök brutust út í Suður-Súdan í lok síðasta árs. Mörg þessara barna hafi misst eða orðið viðskila við fjölskyldur sínar og eru því ein á ferð. UNICEF hefur komið á fót miðstöðvum þar sem börn sem eru án fylgdar fullorðinna eru skráð, að þeim hlúð og þau sameinuð fjölskyldum sínum þar sem því verður við komið.

 „Af ástæðum sem þau eiga enga sök á, hafa börn í Suður-Súdan nú þegar upplifað meiri hörmungar en nokkurt mannsbarn ætti að ganga í gegnum,“ segir Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi. Börnin í landinu berjast nú einnig við sjúkdóma og fæðuóöryggi sem mun leiða til gríðarlegrar hungursneyðar á næstu misserum ef ekkert verður að gert.

„Við verðum að koma þessum börnum til hjálpar tafarlaust. Þau eru algjörlega berskjölduð og nú skiptir hver einasta mínúta máli.“

Stefán Ingi heldur til Suður-Súdan á morgun þar sem hann mun leggja hjálparstarfinu lið á vettvangi í sumar.

Miðasala á styrktartónleika hefst í dag

Miðasala á styrktartónleika fyrir neyðarhjálp UNICEF í Suður-Súdan hefst í dag. Tónleikarnir fara fram í Silfurbergi í Hörpu, fimmtudaginn 3. júlí. Fram koma hljómsveitirnar Hjaltalín og Kaleó ásamt Páli Óskari og Snorra Helgasyni. Miðaverð er 4.500 krónur og rennur óskipt til neyðarsöfnunarinnar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×