Innlent

Flæðir yfir friðland fugla í Svarfaðardal

Kristján Már Unnarsson skrifar
Óttast er að varp fugla spillist í friðlandinu í Svarfaðardal þar sem Svarfaðardalsá flæðir nú yfir bakka sína. Miklir vatnavextir eru í ám á Norðurlandi þessa dagana þegar hlýindi og rigningar bræða óvenju mikinn snjó í fjöllum eftir veturinn. 

Svarfaðardalsáin flæðir yfir tún og engi og er neðsti hluti dalsins eins og hafsjór yfir að líta. Þar eru girðingar á kafi og sjá mátti fuglaskoðunarhús umflotið vatni. Það er reyndar árviss viðburður að áin flæði yfir bakka sína, að sögn Kristjáns Eldjárns Hjartarsonar, byggingarfræðings á Tjörn. Flóðin séu þó óvenju snemma núna og hann býst við að áin geti vaxið mun meira, ef spár rætast og það verði hlýtt og jafnvel fari að rigna meira. Nóg sé af snjó í fjöllunum, þar sé raunar óvenju mikill snjór.

Neðsti hluti Svarfaðardals er eins og fjörður þessa dagana.Stöð 2/Baldur Hrafnkell Jónsson.
Ekki er óttast að mannvirki skemmist að ráði. Kristján segir að þó megi alltaf búast við einhverju tjóni næst ánni á túnum og nytjaengjum. Þá liggi golfvöllur Svarfdælinga undir álagi en hann stendur við ána. 

Helstu áhyggjur manna beinast að fuglafriðlandi Svarfdæla í neðanverðum dalnum en þar verpa um 40 tegundir fugla, að sögn Kristjáns. 

„Þetta er auðvitað allt saman undir og ég gæti alveg ímyndað mér að dálítið af gæsa- og andahreiðrum fari á kaf. Þetta var að vísu óvenju snemma sem varp hófst hér í vor og ég vona það nú að gæsir séu flestar búnar að koma ungum þannig á legg að það bjargist. En þeir fuglar sem hafa seinna komið þeir eru í voða með þetta,” segir Kristján.


Óvenju mikill snjór er í fjöllum ofan Svarfaðardals og er talið að áin geti vaxið enn meira á næstu dögum, ef spár rætast um hlýindi og rigningu.Stöð 2/Baldur Hrafnkell Jónsson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×