Innlent

Límmiði á bíl í Eyjum: Lækkum skatta skjóttu listamann

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
„Mig grunar að þetta tengist kosningunum en ég veit það ekki,“ segir Sigga Jónsdóttir, leikskáld, en hún tók mynd í dag af límmiða á afturrúðu í bíl í Vestmannaeyjum og setti á Instagram. Á límmiðanum stendur: Lækkum skatta skjóttu listamann. „Ég sá þetta á bíl á bryggjunni.“

„Mér datt ekki í hug að þetta væri eitthvað sem fólk væri að hugsa í raun og veru. Þetta er væntanlega eitthvað grín sem fór of langt,“ segir Sigga. „Ég held þetta sé ekki illa meint. Ég tek þessu ekkert persónulega.“ Sigga er listamaður sjálf, hefur samið útvarpsleikrit og les yfir þau fyrir RÚV. „Þess vegna hjó ég eftir þessu,“ útskýrir hún.  

„Ég held þetta tengist umræðunni um listamannalaun. Hún er svolítið á villigötum. Forgangsröðunin hjá fólki er misjöfn og kannski er forgangsröðunin úti í Eyjum önnur. En mér finnst þetta svolítið langt gengið.“ Sigga vekur athygli á því að það hafi verið fyrirhöfn að koma miðanum fyrir. „Þeim þótti þetta greinilega það mikilvægt að hafa búið til límmiða og sett hann í gluggann. Það er eitt að hugsa þetta en annað að gera þetta.“ Það kom henni á óvart að fólk væri tilbúið til að flagga þessum skoðunum á þennan hátt.

Sigga á erfitt með að trúa að þetta séu raunverulegar skoðanir þessa fólks. „Þetta greinilega hefur verið eitthvað grín,“ segir hún vongóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×