Innlent

Bleiksá stífluð svo hægt sé að leita betur

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Bleiksá verður stífluð í dag.
Bleiksá verður stífluð í dag. Vísir/MAgnús Hlynur
Leitin í Fljótshlíð að Ástu Stefánsdóttur, sem hvarf um Hvítasunnuhelgina, hófst á ný í morgun. Svanur Lárusson stýrir aðgerðum á svæðinu í dag. Stendur til að stífla Bleiksá, svo hægt verði að leita í fossinum þar. „Í morgun byrjuðum við á svokallaðri hraðleit í ánni, inn gilið, til að ganga úr skugga um að ekkert hafi skilað sér fram frá því síðast var leitað. Nú erum við að undirbúa að hefja dælingu, með það fyrir augum að færa ána fram fyrir fossinn. Við skjótum vatninu fram og höfum við höfum komið dælum fyrir í gil hér fyrir ofan fossinn,“ útskýrir hann.

Þetta er umfangsmikil aðgerð og munu leitarmenn notast við tólf dælur til verksins. „Það þarf gríðarlega mikið rafmagn í þetta. Við erum búin að setja upp loftbrú til að ferja búnaðinn. Hér eru slöngar barkar, rafstöð og fleira, sem þarf að ferja.“ Allt að 100 manns munu taka þátt í aðgerðinni.

„Við reiknum með því að geta fljótlega byrjað að prófa eitthvað af dælunum, en förum líklega ekki á fullt fyrr en í kringum þrjú eða fjögur, það fer eftir því hvernig gengur,“ segir Svanur að lokum.

Ástu Stefánsdóttur hefur verið saknað frá því um hvítasunnuhelgina. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×