Innlent

Ástarlásar í Reykjanesbæ

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/gunnar ingvi
Íslendingar geta nú innsiglað ást sína með því að fara að Brúnni milli heimsálfa í Reykjanesbæ. Hengilásar með nöfnum ástfanginna para eru nýlega farnir að sjást á brúnni en þessi siður, að rita nöfn sín á lása og krækja í brýrnar, hefur til dæmis tíðkast í París undanfarin ár. Það er til merkis um að pörin hafi skilið hjörtu sín eftir í borginni og að ást þeirra verði eilíf. Pörin henda lyklinum ofan í ánna Signu og þar með hafa þau innsiglað ást sína. Vísir sagði frá því á dögunum þegar hluti handriði umræddar brúar í París hrundi undan þunga lásanna.

Siðurinn hefur þó tíðkast í fleiri borgum og sjá má alls kyns lása, í hinum ýmsu stærðum, gerðum og litum víðs vegar um heiminn. Þó er þetta í fyrsta sinn sem þetta er gert á Íslandi.

mynd/gunnar ingvi
Aðsóknin að brúnni í Reykjanesbæ er nokkuð góð, að sögn Guðlaugar Maríu Lewis fræðslufulltrúa í Reykjanesbæ, en hana mætti þó bæta. Hún segir að á döfinni sé alþjóðlegur viðburður við brúna í haust sem komi líklega til með að vekja enn frekari athygli á þessum skemmtilega stað.

„Stefnt er að því að þessi viðburður geti orðið árlegur og dregið að sér fjölda gesta,“ segir Guðlaug en telur þó of snemmt að greina nánar frá þessum viðburði að svo stöddu.

„Við höfum lagt það til að fólk láti mynda sig á þann veg að það líti út fyrir að það sé að halda á brúnni, svipað og þegar fólk lætur mynda sig þannig að það líti út fyrir að það sé að styðja við skakka turninn í Pisa. Þessi hugmynd er komin frá nemanda í Akurskóla í Reykjanesbæ, Daníel Alexanderssyni,“ segir Guðlaug enn fremur.

Brúnni var komið fyrir árið 2002 yfir gjá sem myndast hefur vegna hreyfingar meginlandsflekanna, Evrasíu- og Norður-Ameríkuflekanna, sem mætast hér á landi.

mynd/gunnar ingvi
mynd/gunnar ingvi
Daníel Alexandersson heldur á brúnni.mynd/víkurfréttir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×