Innlent

Þjóðhátíð í dag: Dagskráin í Reykjavík

Bjarki Ármannsson skrifar
Frá Arnarhóli fyrir nokkrum árum.
Frá Arnarhóli fyrir nokkrum árum. Vísir/Danni
Í dag er þjóðhátíðardagur okkar Íslendinga og þéttskipuð dagskrá í miðbæ Reykjavíkur að vanda.

Dagskráin hófst nú klukkan 10:15 með Guðsþjónustu í Dómkirkjunni þar sem Agnes Sigurðardóttir biskup og Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur þjóna fyrir altari. Séra Valgeir Ástráðsson predikar.

Klukkan 11:10 hefst svo hátíðarathöfn á Austurvelli og stendur yfir til um 11:50. Þar mun Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra halda ræðu, Fjallkonan í ár mun flytja ávarp sitt og Ólafur Ragnar Grímsson forseti leggur blómasveig að minnisvarða Jóns Sigurðssonar. Karlakórinn Heimir, Lúðrasveit Reykjavíkur og Drengjakór Reykjavíkur leika tónlist.

Að athöfninni lokni hefst svo skrúðganga frá Austurvelli að kirkjugarðinum við Suðurgötu. Stærri skrúðgöngur hefjast svo klukkan eitt, frá Hlemmi niður Laugaveg og frá Hagatorgi niður í Hljómskálagarð.

Klukkan 13:30 hefst svo fjölskyldudagskrá víða um bæ. Latibær, Gunni og Felix, Sirkus Íslands, Pollapönk og fleiri troða upp á Arnarhóli. Ókeypis verður í leiktæki í Hljómskálagarðinum, Brúðubíllinn verður í Hallargarðinum og Sirkus Íslands með götuleikhús og sirkusskóla á Ingólfstorgi.

Þá verður einnig tónlistardagskrá í Eldborgarsal Hörpu þar sem Lúðrasveitin Svanur, Karlakórinn Heimir, Bjartmar Guðlaugsson og fleiri leika tónlist til um það bil þrjú.

Þetta er aðeins brot af skipulagðri dagskrá í dag, sem nálgast má í heild sinni á vef Reykjavíkurborgar. Dagskrá lýkur klukkan tíu í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×