Innlent

Hátíðarhöld á Austurvelli

Birta Björnsdóttir skrifar
Forsætisráðherra gerði búsetuskilyrði á landsvísu meðal annars að umfjöllunarefni í ræðu sinni.
Forsætisráðherra gerði búsetuskilyrði á landsvísu meðal annars að umfjöllunarefni í ræðu sinni. Vísir/Daníel
Hátíðardagskrá fór fram á Austurvelli venju samkvæmt fyrr í dag. Mikill fjöldi var samankominn i blíðviðrinu í miðbænum og fjöldi erlendra ferðamanna fylgdist með því sem fram fór.

Að lokinni guðsþjónustu í Dómkirkjunni lagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, blómsveig frá íslensku þjóðinni að minnisvarða Jóns Sigurðssonar.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra minntist svo tímamótanna í hátíðarræðu. Hann sagði sögu undanfarinna sjö áratuga vera sögu mikilla framfara og að jafnvel sé um að ræða mestu framfarasögu sem nokkur þjóð hafi upplifað á svo skömmum tíma. Hann sagði það þó umhugsunarefni að ekki hafi tekist að skapa jöfn búsetuskilyrði um land allt og nefndi sem dæmi að nú búi færri á Vestfjörðum en á nítjándu öld. Hann sagði mikilvægt að taka framfaratrú landsmanna árið 1944 okkur til fyrirmyndar á komandi árum.

Valgerður Guðnadóttir klæddist að þessu sinni skrúða fjallkonunnar og las ljóðið Mynd til Láru eftir Valgeir Guðjónsson.

Skrúðganga lagði síðan af stað frá Austurvelli í kirkjugarðinn við Suðurgötu þar sem Sóley Tómasdóttir, nýr forseti borgarstjórnar, lagði blómsveig á leiði Jóns Sigurðssonar og Ingibjargar Einarsdóttur.

Hér fyrir neðan fylgja nokkrar myndir af hátíðahöldunum.

Valgerður Guðnadóttir var Fjallkonan að þessu sinni.Vísir/Daníel
Hátíðarhöldin á Austurvelli.Vísir/Daníel
Lúðrasveit Reykjavíkur leiðir skrúðgönguna að kirkjugarðinum.Vísir/Daníel



Fleiri fréttir

Sjá meira


×