Heimsókn þeirra hófst formlega í morgun þegar krónprinshjónin áttu fund með forsetahjónunum á Bessastöðum skömmu fyrir klukkan 10. Í kjölfarið fluttu Viktoría og Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands stutt ávörp á sænsku af því tilefni.
Ólafur bauð hjónin velkomin til landsins. Hann sagðist hlakka til dagskrárinnar í dag og á morgun. Rifjaði Ólafur upp að löndin tvö, Ísland og Svíþjóð, hefðu ættu að baki mörg hundruð ára tengsl og samstarf.

Sænsku hjónakornin fóru því næst í Hörpu, skoðuðu bygginguna og fræddust um íslenskt tónlistarlíf. Því næst héldu þau í Norræna húsið þar sem efnt var til funda um viðskiptatengsl Svíþjóðar og Íslands en að honum standa sænska sendiráðið hérlendis og Íslensk-sænska viðskiptaráðið.

Þegar húmar að kveldi munu krónprinshjónin snæða kvöldverð með Ólafi Ragnari og Dorrit Moussaieff forsetafrú á Bessastöðum.



