Innlent

Jón Steinar efast um hæfi nýskipaðs hæstaréttardómara

Jakob Bjarnar skrifar
Jón Steinar telur fyrirliggjandi að Benedikt Bogason verði að svara ákveðnum spurningum áður en hann njóti trausts sem hæstaréttardómari.
Jón Steinar telur fyrirliggjandi að Benedikt Bogason verði að svara ákveðnum spurningum áður en hann njóti trausts sem hæstaréttardómari.
Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður og fyrrverandi hæstaréttardómari, telur vafa leika á um hvort nýskipaður hæstaréttardómari, Benedikt Bogason, sé heill og sýni „fylgispekt við landslög,“ eins og Jón Steinar orðar það í grein sem hann skrifaði og birtist í Morgunblaðinu í morgun. Jón Steinar telur reyndar sjálfur ofmælt, í samtali við fréttastofu, að hann efist um hæfi Benedikts, en í það minnsta telur Jón Steinar vert að Benedikt svari spurningum svo borgarar geti treyst honum. Og ómögulegt annað en draga þá ályktun að vafi leiki þar á um meðan þeim spurningum er ósvarað. Jón Steinar krefur dómarann svara.

Málið varðar hlerunarúrskurð sem sérstakur saksóknari fékk í maí 2010 frá héraðsdómara;  að hann hafi verið falsaður. Úrskurðurinn var veittur til að heimila hlerun á símum Hreiðars Más Sigurðssonar fyrrverandi forstjóra Kaupþings. Hreiðar Már kærði Ólaf Þór Hauksson sérstakan saksóknara og Benedikt Bogason þáverandi héraðsdómara en nú hæstaréttardómara til Ríkissaksóknara fyrir brot í opinberu starfi með vísan í þennan meinta falsaða úrskurð. Fréttablaðið greindi fyrst frá málinu 16. júní.

Jón Steinar vitnar í fréttir Vísis af málinu og þess að Benedikt vilji ekki tjá sig efnislega um þessar ásakanir við fréttastofu nema vísa ásökununum alfarið á bug. Þetta telur Jón Steinar engan veginn duga til. „Það er misskilningur ef menn halda að þetta mál snúist aðeins um hugsanlegar refsiverðar sakir og ekki þurfi að sinna því frekar ef þær eru fyrndar,“ segir Jón Steinar sem vonar að Benedikt hafi ekki gerst sekur um misnotkun dómsvalds, líkt og Heiðar heldur fram. Til að Benedikt geti reynst traustsins verður í Hæstarétti verði hann að svara eftirfarandi spurningum:

„1. Hafði hann fengið skriflega beiðni frá sérstökum saksóknara um símahlustun, áður en hann kvað upp úrskurðinn.

2. Hvaða önnur gögn lágu fyrir honum á því augnabliki?

3. Var málið tekið fyrir á þingstað Héraðsdóms Reykjavíkur við Lækjartorg í Reykjavík?

4. Er það rétt sem segir í frétt blaðsins, að lögreglumenn hafi sótt úrskurðinn á heimili dómarans í Reykjavík og þá hafi engar forsendur fylgt niðurstöðunni?

5. Mætti sérstakur saksóknari á dómþing í málinu?

6. Óskaði hann eftir því við lögreglumennina sem sóttu úrskurðinn til hans að skrifleg beiðni um símahlustunina yrði fengin honum síðar?“

Jón Steinar klykkir út með því að vona að Benedikt sýni með svörum sínum að hann verðskuldi það traust sem hann þarfnast við störf sín sem dómari við Hæstarétt Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×