Innlent

Réðst á mann í kyrrstæðum bíl í sumarbústaðahverfi

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Fórnarlambið slasaðist alvarlega í andliti.
Fórnarlambið slasaðist alvarlega í andliti. Mynd/Samsett
Maður var sakfelldur á mánudag fyrir líkamsárás með því að hafa veist að öðrum manni sem sat í bifreið sinni þar sem hún var kyrrstæð á afleggjara inn í sumarbústaðahverfi í Reykjaskógi í Bláskógabyggð. Árásarmaðurinn opnaði bílstjórahurðina, lamdi manninn sem inni sat í andlitið og sparkaði í síðu hans. Árásin átti sér stað í nóvember síðastliðnum. Dómurinn var kveðinn upp af Héraðsdómi Suðurlands. 

Fórnarlambið hlaut af árásinni þrjú sár í kringum munninn sem sauma þurfti með þrettán sporum. Mun maðurinn samkvæmt bótakröfu bera varanlegt lýti í andliti eftir árásina og líklegt er talið að hann hafi orðið fyrir taugaskaða. Að auki brákaðist rifbein, hann fékk mar á lunga og á vinstri síðu.

Árásarmaðurinn játaði verknaðinn  og var litið til þess við ákvörðun refsingar. Hún var ákveðin sextíu dagar en fullnustu refsingarinnar var frestað. Hefur maðurinn aldrei áður gerst sekur um brot gegn hegningarlögum en fimm sinnum áður sætt refsingu fyrir brot á fíkniefnalögum annars vegar og umferðarlögum hins vegar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×