Innlent

Illa sviknar á svörtum leigumarkaði

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Sífellt færist í aukana að óprúttnir aðilar notfæri sér örvætingu fólks á leigumarkaði. Dæmi eru um að aðilar leigi út húsnæði sem þeir eiga ekki og láti sig svo hverfa með trygginga- og leigufé. 

Leiguverð hefur hækkað mikið síðustu ár og er ekki á færi allra að leigja á hinum almenna markaði. Einhverjir grípa til þess örþrifaráðs að leigja svart í góðri von. Jóhann Már Sigurbjörnsson, formaður Samtaka leigjenda, segir svarta leigumarkaðinn fara sífellt stækkandi og gerir ráð fyrir að um 50% leigjenda borgi leiguna svart.

Pálína Ósk Ómarsdóttir hefur slæma reynslu af svörtum leigumarkaði. Hún hafði lengi leitað að leiguhúsnæði þegar hún rakst á íbúð á sanngjörnu verði á Bland.is. Leigan var 120 þúsund en auk þess þurfti hún að reiða fram 380 þúsund krónur í tryggingu. Hún hafði því greitt manninum sem leigði henni um 780 þúsund krónur þegar upp komst um svikin.

„Við vorum búnar að búa í íbúðinni í þrjá mánuði þegar rafmagnið fór af og við komumst að því að bankinn á íbúðina en ekki maðurinn sem var að leigja okkur hana. Hann var fyrrum leigjandi þarna sjálfur og þegar eigandinn missti íbúðina til bankans ákvað hann að leigja hana út sjálfur og hirða peningana. Við vorum þannig búnar að vera í húsnæði í leyfisleysi í marga mánuði,“ segir Pálína.

Ólöf Ýr  hefur svipaða sögu að segja, en hún fann ódýrt herbergi til leigu á vefsíðunni Leiga.is. Eftir að hafa greitt 130 þúsund krónur í leigu og búið í herberginu í fjóra daga kom í ljós að aðilinn sem leigði henni herbergið hafði enga heimild til þess.

Ef ekki er gerður húsaleigusamningur eru leigjendur svo gott sem réttindalausir. Hvorki Ólöf né Pálína náðu sambandi við leigusalann eftir að svikin komust upp og því eru því litlar sem engar líkur á að þær fái leiguféð endurgreitt. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.