Enski boltinn

Rodgers: Suarez að spila alveg jafnvel núna og í desember

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Suarez.
Luis Suarez. Vísir/Getty
Luis Suarez tókst ekki að skora fyrir Liverpool í fimm leikjum í deild og bikar í febrúarmánuði en knattspyrnustjórinn Brendan Rodgers segir að hann sé alveg jafnhættulegur fyrir mótherja liðsins þótt að mörkin láti á sér standa.

Luis Suarez er ennþá markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar með 23 mörk og hann er einnig efstur í ensku úrvalsdeildinni í stoðsendingum.

„Hann hefur fengið sviðsljósið á sig og ekki síst vegna allra markanna sem hann hefur skorað. Gengið liðsins að undanförnu sýnir hinsvegar að þetta er sameiginlegt átak hjá mínu liði," sagði Brendan Rodgers við Sky Sports.

Liverpool fékk 10 af 12 mögulegum stigum í febrúar þrátt fyrir að Luis Suarez tækist ekki að skora í fjórum leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni.

„Af síðustu 33 mörkum okkar þá hefur Suarez bara skorað 4 en það dregur ekki úr áhrifum hans. Næstum því helmingur marka okkar koma í gegnum hann hvort sem hann skorar þau sjálfur eða leggur þau upp," sagði Rodgers.

„Fólk hélt kannski að hann spilaði bara fyrir sjálfan sig en hann hefur verið magnaður liðsmaður fyrir okkur á þessu tímabili. Að mínu mati er hann að spila jafnvel núna og þegar hann var að raða inn mörkum í desember," sagði Rodgers sem hrósar framherja sínum fyrir dugnað og fórnfýsi inn á vellinum.

Luis Suarez í desember í deild og bikar:

7 leikir

10 mörk skoruð

7 mörk lögð upp

Luis Suarez í febrúar í deild og bikar:

5 leikir

0 mörk skoruð

5 mörk lögð upp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×