Innlent

Bein útsending: Áfram rætt um ESB á Alþingi í dag

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/GVA
29 mál eru á dagskrá Alþingis í dag en áfram verður rætt um skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um Evrópusambandið. Byrjað verður á óundirbúnum fyrirspurnartíma samkvæmt dagskrá.

Þingfundur hófst klukkan 10:30

Helgi Hjörvar byrjaði á að ræða fundarstjórn forseta Alþingis og mótmælti því að fundir hefðu staðið fram á nótt í gær. Að svo stór málefni og rædd hafi verið séu rædd að nóttu til. Þá stakk Helgi upp á því að náttúruverndarlögin yrðu rædd fyrst á þingfundi dagsins.

Svandís Svavarsdótir mótmælti einnig næturfundi gærdagsins og sagði að ESB málið væri ekki dagsetningarmál, enda væru tveir og hálfur mánuður eftir af þinginu. Þá spurði hún hvernig forseti gæti útskýrt þá stöðu sem upp hefði komið í nótt.

Helgi Rafn Gunnarsson tók næstur til máls og gerði út á uppröðun dagskrár þingfundsins. Fyrst væri rætt um ESB skýrsluna, svo um að slíta viðræðum og svo um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna.

Katrín Jakobsdóttir setti einnig út á fundarstjórn síðustu daga og skoraði á forseta að leggja línurnar fyrir næstu vikur svo hægt væri að eiga efnislegar umræður.

Árni Páll Árnason sagði óljóst hvernig ríkisstjórnin ætlaði að halda á ESB málinu og sagði henni takast að gera Evrópumálin að enn meira átakamáli en áður var.

Guðmundur Steingrímsson sagði að nauðsynlegt væri að leita að efnislegum sáttavegi. Þingmenn Bjartrar framtíðar væru reiðubúnir til að fallast á þá nálgun sem kemur fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og það telur hann vera sáttatillögu.

Helgi Hjörvar sagði einnig að nauðsynlegt væri að leita sátta í málinu og sagðist hafa áhyggjur af því að forseti gengi ekki nógu langt í að verja þingmenn í pontu.

Unnur Brá Konráðsdóttir sagði að rétt væri að halda áfram með dagskrána. Hún minnti á að á síðasta kjörtímabili hafi umræður nokkrum sinnum verið fram á nóttu og nefndi í því sambandi Icesave málið.

Katrín Jakobsdóttir sagði að ekki væru rök fyrir næturfundum. Hún sagði einnig að ESB málið væri ekki að fara úr pólitískri umræðu og ómaklegt væri að reyna að þvinga það af borðinu.

Róbert Marshall ræddi það, sem frægt er orðið, þegar Bjarni Benediksson lagði bréf á ræðustólinn meðan Katrín Júlíusdóttir var með orðið og vildi fá álit forseta á því hvort þingmenn ættu að eiga von á slíku áfram.

Birgitta Jónsdóttir þakkaði forseta fyrir að hafa frumkvæði um að formenn flokkana skuli hafa hist fyrir þingfund, en gerði út á það að formenn stjórnarflokkana hafi ekki komið með neitt að borðinu.

Svandís Svavarsdóttir þakkaði Guðmundi Steingrímssyni fyrir að freista þess að leita sátta og sagði það afar mikilvægt að reyna að koma sjónarmiðum upp úr skotgröfum. Hún sagði að hægt væri að fara sáttaleið Vinstri Grænna og sagðist vænta þess að nefndavikan yrði notuð til ígrundunar.

Árni Páll Árnason ítrekaði að Samfylkingin væri tilbúin til samtals um efnislega niðurstöðu þessa mála. Sagði hann athyglisvert að stjórnarandstæðan væri í sáttahug en stjórnin væri ekki tilbúin til að sætta sig við sinn eigin stjórnarsáttmála. Sagði hann öfgaöfl hafa náð undirtökunum í stjórnarflokkunum.

Guðlaugur Þór Þórðarson sagðist vera búinn að vera þingmaður frá 2003 og margoft væri búið að setja blað í ræðupúltið á meðan hann héldi ræðu. Það væri engin ögrun. Hann sagði að Alþingi myndi ekki stýra umræðunni um ESB hjá þjóðinni og sagði að það þyrfti að ræða skýrsluna efnislega.

Birgitta Jónsdóttir hvatti þingmenn til að spara gífuryrðin eins og mögulegt væri. Slík orð væru ekki til að auka virðingu Alþingis. Þá hvatti hún Alþingismenn til að fara sáttatillögu Vinstri grænna.

Róbert Marshall rifjaði upp þegar tveir þingmenn gengu framhjá pontu með skilti. Sagði hann forseta þá hafa slitið þingi. Einnig sagði hann að stjórnvöld hafi lofað almenningi að segja skoðun sína og spurði hvað hefði breyst síðan þá.

Sigrún Magnúsdóttir sagði forseta hafa staðið sig vel á þeim óróleikatímum sem staðið hafa yfir síðustu daga og sagði umræðuna vera nokkuð á haus. Ekki væri hægt að kenna meirihlutanum um óróleikann og tímalengd á umræðunum. Stjórnarandstæðan hefði verið mestan tíma í pontu.

Katrín Júlíusdóttir sagðist ekki hafa líkað aðstæðurnar í gær og hún hafi snöggreiðst. Hún hafi þó beðist afsökunar og sagði málið búið hvað hana varði.

Guðmundur Steingrímsson ítrekaði sáttarboð Bjartrar framtíðar og sagði stöðuna í dag nýja. Þeirra afstaða væri að klára ætti samninginn en búa ætti til sáttafarveg grundvallaðan á stjórnarsáttmálanum.

Óundirbúinn fyrirspurnartími hefst núna 11:04

Árni Páll Árnason sagði alla ráðherra Sjálfstæðisflokksins hafa lofað þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir síðustu kosningar. Spurði hann hvernig kjósendur ættu að treysta frambjóðendum flokksins ef ekki væri hægt að treysta orðum þeirra fyrir kosningar. Spurði hann innanríkisráðherra hvernig hægt væri að verja þetta.

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra svaraði að Árni ætti að hafa frekari áhyggjur af sjálfum sér. Honum hafi ekki tekist að koma Íslandi í ESB eins og hann lofaði. Þar væru hin raunverulegu svik í ESB málinu. Sagði hún Sjálfstæðisflokkin ekki telja hagsmunum Íslands best borgið innan ESB og hefði hann aldrei talið það.

Sagði hún að ef til vill hefði verið betra að setja umsóknina í þjóðaratkvæðagreiðslu en málið nú.

Árni Páll sagði Hönnu Birnu hafa vald til að efna til atkvæðagreiðslu sem lofað var. Vísaði hann til ummæla hennar frá því í fyrra og sagði forsvarsmenn Sjálfstæðisflokksins víða um land hafa komið fram og sagt að efna ætti til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hanna Birna svaraði aftur og sagði ágreininginn snúast um að Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki áhuga á að fara með Ísland í ESB. Hún benti á að þjóðin hafi í síðustu kosningum ekki kosið þá flokka sem vilji fara í ESB.

Björt Ólafsdóttir beindi fyrirspurn sinni til innanríkisráðherra og sagði að í kvöldfréttum RÚV í gær hafi verið rifjað upp loforð ráðherra um þjóðaratkvæðagreiðslu. Hún spurði hvaða staðreyndir varðandi ESB hafi breyst frá því. Sjálf hafi Hanna Birna sagt að þjóðin fengi að ákveða hvaða leið yrði gengin í þessu máli.

Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði þessa fyrirspurn vera efnislega eins og fyrr hefði verið lögð fram. Hennar skoðun og flokksins væri að eigi áfram að halda áfram með einhverjum hætti verði það ákveðið með þjóðaratkvæðagreiðslu. Persónulega hefði hún mikla trú á þeim og vill gera þá algengari hér á Ísland og laga umgjörð í kringum þær.

Hanna Birna sagði margt hafa breyst. Hér hafi ný ríkisstjórn tekið við sem væri á móti inngöngu Íslands í ESB og að út væri komin skýrsla.

Björt Ólafsdóttir sagðist gera sér grein fyrir því að verið væri að ræða skýrslu og sagði ekkert í henni sem gæfi tilefni til að slíta viðræðum. Vildi hún gjarnan heyra hvað það væri, ef ráðherra væri ósammála henni.

Hanna Birna ítrekar að hún telji að skýrslan færi sannanir um að í ESB malinu hafi Ísland verið á meiri villigötum en fólk áttaði sig á.

Helgi Hjörvar sagði stjarnfræðileg svik formanns Sjálfstæðisflokksins koma jafnvel andstæðingum flokksins á óvart. Spurði hann menntamálaráðherra hvernig þjóðin ætti að taka mark á ráðherra sem lýsir því yfir að hann hafi rétt á að snúast hugur þegar hann vill.

Illugi Gunnarsson vakti athygli á viðtali sem Bjarni Benediktsson fór í ágúst síðastliðnum á Stöð 2 þar sem hann sagði að ef hann kæmist til valda myndi hann slíta viðræðum við ESB. Benti hann á að annar stjórnarflokkurinn í síðustu ríkisstjórn hafi ekki ætlað að sækja um ESB en svo hafi þó verið gert.

Benti hann á að öll rök bentu á að ekki myndu fást neinar sérúrlausnir fyrir Ísland. Mat stjórnvalda væri að hagsmunum Íslands væru best varðir utan ESB.

Helgi Hjörvar sagðist ekki hafa spurt um Bjarna Benediktsson heldur um Illuga sjálfan. Spurði hann Illuga hvort hann áskili sér rétt til að ganga frá öllum loforðum sínum ef hann skipti um skoðun.

Illugi sagði hagsmuni Íslands skipta mestu máli. Hann sagðist gera sér grein fyrir því að Helgi Hjörvar myndi ekki sætta sig við skýringar sínar.

Helgi Hjörvar ræðir fundarstjórn forseta og sagðist gera það vegna þess vanda sem uppi væri í þinghaldinu. Sagði hann dagsrkánna vera í hnút og eftir ætti að afgreiða stór mál sem þarfnist mikillar umræðu. Hvatti hann forseta til að gera hlé á þingfundi meðan samræður fari fram á milli flokkana. Ekki miðaði áfram í salnum, nema efnislegar umræður fari fram á milli manna.

Einar Kristinn Guðfinnsson, sagðist trúa því að viðræður af slíku tagi geti skilað árangri og sagðist ætla að tala við þingflokksformenn í hádegishléi.

Svandís Svavarsdóttir sagði að þegar staðan væri sú að formenn flokka væru komnir að borðinu væri ekki lagt neitt til lausnar frá meirihlutanum. Sagðist hún styðja forsetann í því að gæta virðingar þingsins í samræðum flokka, því óþolandi væri að forsvarsmenn stjórnarflokkana komi ekki með neitt til borðsins.

Valgerður Bjarnadóttir sagðist trúa því að forseti reyni hvað hann geti til að koma á samkomulagi um að hægt væri að halda áfram eðlilegum þingstörfum. Hún sagði forseta hafa gert sitt ítrasta í gær til að reyna að fá svör. Sagði hún ekki boðlegt að þingmaður hafi haldið sína fyrstu ræðu um málið á milli tvö og hálf þrjú í nótt.

Guðlaugur Þór sagði forseta Alþingis hafa sýnt mikla þolinmæði undir fundarliðsins fundarstjórn forseta. Hann sagði það fordæmi að minnihlutinn geti stöðvað öll mál sem hann gæti með því að draga umræður um fundarstjórn forseta líklega vera til framtíðar, ef svo yrði.

Einar Kristinn Guðfinnsson, forseti Alþingis, hvatti til þess að hægt væri að halda áfram að ræða efnislega dagskrá þingsins.

Katrín Júlíusdóttir sagði vandan vera þann að á meðan stjórnarandstaðan hafi verið að leggja fram sáttartillögur og slíkt hafi ekkert komið frá meirihlutanum og ráðherrar væru ekki í sal og svöruðu ekki spurningum. Á meðan notaðist minnihlutin við þau brögð sem þau gætu.

Árni Páll Árnason sagði ástæðu fjölda ræða vera sjálfskaparvíti ríkisstjórnarinnar. Dræm svör frá ráðherrum og forseta um umræðu skýrslunnar í utanríkisnefnd væru ástæða mikilla ræðuhalda.

Katrín Júlíusdóttir gerði ósk til forseta um hlé á fundi og kallað yrði til fundar þingflokksformanna. Hún sagði það skipta sig miklu máli að fá efnisleg viðbrögð við því sem fram hefur verið lagt.

Forseti Alþingis áréttaði að fundur með þingflokksformönnum yrði í hádegishléi.

Birgitta Jónsdóttir sagðist telja það brýnt að fá rammann frá formönnum flokka. Sagði hún nauðsynlegt að ræða sáttartillögur og að ekkert vit væri í öðru en að formenn stjórnarflokkanna kæmu fram með tillögur sem hægt væri að ræða um. Annars færi Alþingi í enn meiri vitleysu.

Róbert Marshall sagði að hér væri á ferðinni fordæmalaus gjörningur í íslenskri stjórnmálasögu. Að taka ætti út stærsta deilumál þjóðarinnar og eyðileggja það fyrir kynslóðum framtíðar. Engin ástæða væri til þess að stjórnarmeirihlutinn væri að kveinka sér yfir umræðum um málið. Ekki hafi verið hlustað á sáttatillögur.

Nú hefst umræðan um skýrsluna. Róbert Marshall tekur fyrstur til máls. Sagði hann loksins hafa komið skýring á viðsnúningi ráðherra sjálfstæðisflokksins. Menntamálaráðherra hafi sagst vera hugsa um hagsmuni þjóðarinnar. Nú sé verið að leggja til að slíta viðræðum án samtals við þjóðinna.

Þegar ráðherra hafi verið spurður hvaða staðreyndir hafi breyst hafi það verið að tveir stjórnmálaflokkar sem væru geng ESB aðild hafi myndað ríkisstjórn. Þó hafi þeir lofað þjóðaratkvæðagreiðslu.

Róbert segir ráðherra Sjálfstæðisflokksins nú segja að alltaf hafi legið fyrir að flokkurinn væri á móti aðild að ESB. Ekki sé þó verið að deila um það, heldur það að flokkurinn hafi lofað að leggja það undir þjóðina.

Þá sagði Róbert að enga niðurstöðu í skýrslu Hagfræðistofnunnar væri að finna sem benti á að engar sérlausnir væri hægt að fá.

Helgi Hjörvar var fyrstur til að veita andsvar. Bað hann Róbert Marshall um að skýra hvað hann ætti við með að verið væri að eyðileggja málið gagnvart kynslóðum framtíðar.

Róbert sagði minnst 15 til 20 ára líða þar til raunhæfur kostur væri að taka aftur upp viðræður við ESB. Næsta kynslóð stjórnmálamanna kæmi að því.

Helgi Hjörvar spurði því næst Róbert að því hvort hann teldi að ef viðræðunum yrði slitið yrði ESB jafnvel ekki tilbúið til að taka aftur upp viðræður seinna.

Róbert sagðist telja að nú þegar hafi trúverðuleiki Íslands beðið hnekki.

Birgitta Jónsdóttir og Unnur Brá Konráðsdóttir hafa einnig veitt andsvar.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir sagði það hafa gerst með mjög opinskáum hætti í viðtölum við forkólfa Sjálfstæðisflokksins og þeir væru að ganga í berhögg við loforð til kjósenda sinna.

Textalýsingu Vísis er nú lokið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.