Innlent

Saka lögreglu um harðræði við handtöku

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Yngri maðurinn heldur því fram að á myndbandsupptökum vitna á staðnum sjáist hvar lögreglan tekur hann hálstaki og hyggst hann kæra lögregluna.
Yngri maðurinn heldur því fram að á myndbandsupptökum vitna á staðnum sjáist hvar lögreglan tekur hann hálstaki og hyggst hann kæra lögregluna. VÍSIR/PJETUR
Verjendur tveggja manna sem ákærðir eru fyrir að ráðast á lögreglumenn setja út á vinnubrögð lögreglu við rannsókn málsins. Aðalmeðferð fór fram í málinu í Héraðsdómi Norðurlands-Eystra í gær og í fyrradag. RÚV greindi frá málinu í kvöldfréttum.

Hinir ákærðu eru karlmenn á þrítugs og fimmtudagsaldri. Atvikið átti sér stað um verslunarmannahelgina sumarið 2012. Átök brutust út á skemmtistað og lögreglan handtók mennina í kjölfarið. Við handtökuna rifbeinsbrotnaði eldri maðurinn og hefur hann kært lögreglu vegna þess. Yngri maðurinn heldur því fram að á myndbandsupptökum vitna á staðnum sjáist hvar lögreglan tekur hann hálstaki og hyggst hann kæra lögregluna sömuleiðis.

Ákæruvaldið segir árás mannanna á lögregluna hafa verið hættulega og fer fram á fjögurra til fimm mánaða fangelsi yfir mönnunum.

Verjendur mannanna gagnrýna meðal annars að lögreglumaðurinn sem skrifaði frumskýrslu vegna málsins sé sjálfur brotaþoli í málinu. Einnig telja þeir að ekki hafi verið rætt við vitni að atvikinu og fara þeir því fram á að sýknað verði í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×