Innlent

"Ég þori ekki einu sinni að hugsa um það hvers er að vænta“

Gunnar Valþórsson og Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Liðlega þrítugur Íslendingur var dæmdur í ellefu mánaða fangelsi í Kína á Þorláksmessu. DV greindi frá þessu í morgun. Móðir mannsins hefur ekki náð sambandi við hann eftir að dómur féll.

Maðurinn, Geir Gunnarsson, hefur verið búsettur í Kína um nokkurt skeið ásamt bróður sínum. Í janúar á síðasta ári lenti hann í deilum við leigubílstjóra sem reyndi að rukka hann of mikið. Því vildi Geir ekki una og í kjölfarið kom til handalögmála þar sem Geir sló bílstjórann kjaftshöggi. Bílstjórinn höfðaði mál og nú á Þorláksmessu féll dómur, Geir þarf að sitja ellefu mánuði í fangelsi.

„Það hefur enginn fengið að heimsækja hann nema lögfræðingurinn,“ segir Edda Lára Guðgeirsdóttir, móðir Geirs. „Hann fær engin bréf eða neitt sem við erum öll búin að skrifa honum.“

Edda segir föður Geirs staddan í Kína þar sem hann hafi verið í sambandi við sendiráð Íslands í Peking. „Svo hef ég ekkert heyrt í tvo eða þrjá daga. Ég veit ekki hver gangur málsins er, það eru engar nýjar fréttir.“

Hún segir málið afar erfitt og taka mikið á fjölskylduna.

„Þetta er rosalega erfitt. Þetta gerðist seinnipartinn í janúar í fyrra og málið tók alveg þessa 11 mánuði. Ég veit ekkert hvers á að vænta frá Kína. Þetta er búið að vera skrípaleikur dauðans. Væntingarnar eru auðvitað þær að drengurinn losni út, hvort sem þeir vilja síðan halda þessum dómi áfram eða hvað. Hann gæti þá bara klárað það hérna á Íslandi. Ég þori ekki einu sinni að hugsa um það hvers er að vænta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×