Enski boltinn

Áttundi stóri titill Wengers hjá Arsenal

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Níu ára bið Arsene Wenger eftir titli lauk í gær.
Níu ára bið Arsene Wenger eftir titli lauk í gær. Vísir/Getty
Arsenal fagnaði í gær sínum fyrsta stóra titli í níu ár eftir sigur á Hull City í framlengdum úrslitaleik á Wembley.

Það blés ekki byrlega fyrir Arsenal í byrjun leiks. Hull komst í 2-0 eftir átta mínútur en liðsmönnum Arsenes Wenger tókst að snúa taflinu sér í vil. Santi Cazorla og Laurent Koscielny jöfnuðu leikinn í venjulegum leiktíma og það var svo Aaron Ramsey sem tryggði Arsenal sigurinn í framlengingunni með sínu 16. marki á tímabilinu.

Þetta var í ellefta sinn sem Arsenal verður bikarmeistari, en liðið er nú það sigursælasta í sögu ensku bikarkeppninnar ásamt Manchester United.

Arsene Wenger tók við liði Arsenal af Bruce Rioch þann 30. september 1996. Á þessum 18 árum sem Wenger hefur verið við stjórnvölinn hjá Arsenal hefur liðið unnið enska meistaratitilinn í þrígang og ensku bikarkeppnina fimm sinnum.

Undir stjórn Wengers hefur Arsenal aldrei endað neðar en í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar og ávallt unnið sér þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu. Wenger kom Arsenal einnig í úrslitaleik Evrópukeppni félagsliða árið 2000 og úrslitaleik Meistaradeildarinnar sex árum síðar þar sem liðið beið lægri hlut fyrir Barcelona.

Titlar sem Arsenal hefur unnið undir stjórn Arsene Wenger:

Enska úrvalsdeildin: 1997-98, 2001-02, 2003-04.

Enska bikarkeppnin: 1997-98, 2001-02, 2002-03, 2004-05, 2013-2014.


Tengdar fréttir

Wenger: Þurftum að vinna titil

"Þetta var mikilvægur sigur. Taugarnar voru þandar og það sást alveg frá byrjun, en við komum til baka," sagði Arsene Wenger í viðtali við SkySports eftir að Arsenal hafði tryggt sér bikarmeistaratitilinn með sigri á Hull City í úrslitaleik á Wembley.

Níu ára bið Arsenal á enda | Myndband

Arsenal fagnaði sínum fyrsta stóra titli í níu ár eftir 3-2 sigur á Hull City í framlengdum bikarúrslitaleik á Wembley. Þetta var 11. bikarmeistaratitill Arsenal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×