Enski boltinn

Wenger: Þurftum að vinna titil

Arsene Wenger lyftir bikarnum.
Arsene Wenger lyftir bikarnum. Vísir/Getty
"Þetta var mikilvægur sigur. Taugarnar voru þandar og það sást alveg frá byrjun, en við komum til baka," sagði Arsene Wenger í viðtali við SkySports eftir að Arsenal hafði tryggt sér bikarmeistaratitilinn með sigri á Hull City í úrslitaleik á Wembley.

Arsenal byrjaði leikinn illa og eftir átta mínútur var staðan 2-0 fyrir Hull.

"Á heildina litið, þá var það andinn, samstaðan og gæðin í liðinu sem tryggðu okkur þennan titil. Um tíma virtist það ekki líklegt, en það var vegna þess að Hull spilaði vel. Þeir eiga mikið hrós skilið og Steve Bruce hefur unnið frábært starf með liðið."

Þetta var fyrsti stóri titilinn sem Arsenal vinnur í níu ár og Wenger viðurkennir að þungu fargi sé af honum létt.

"Þetta var mjög mikilvægt fyrir liðið. Við getum byggt ofan á þennan árangur og titilinn léttir mikilli pressu af okkur.

"Við áttum erfitt uppdráttar í sumum leikjum á tímabilinu en þessi titill færir okkur trú og sjálfstraust. Við fengum 79 stig í ensku úrvalsdeildinni, stóðum okkur vel í Meistaradeildinni og unnum bikarinn. Liðið hefur sýnt mikinn stöðugleika en við þurftum að vinna titil."

Aðspurður hvort hann yrði áfram við stjórnvölinn hjá Arsenal sagði Wenger: "Já, að sjálfsögðu."


Tengdar fréttir

Níu ára bið Arsenal á enda | Myndband

Arsenal fagnaði sínum fyrsta stóra titli í níu ár eftir 3-2 sigur á Hull City í framlengdum bikarúrslitaleik á Wembley. Þetta var 11. bikarmeistaratitill Arsenal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×