Innlent

Bílvelta á Ströndum: Fimm Suður-Kóreumenn komust í hann krappan

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Eva Sigurbjörnsdóttir
Eva Sigurbjörnsdóttir Vísir/Stefán
Fimm ferðamenn frá Suður-Kóreu komust í hann krappann um tíuleytið í morgun þegar þeir veltu pallbíl með húsi um 15 kílómetra norðan við Djúpuvík á ströndum. Bíllinn hafnaði úti í sjó en ekkert þeirra fimm sakaði alvarlega þótt þau hafi verið í nokkru áfalli eftir atburðinn.

Eva Sigurbjörnsdóttir, hótelstýra á Hótel Djúpavík og oddviti Árneshrepps, fékk símtal um korter yfir tíu þar sem henni var tilkynnt um slysið. Brunaði hún af stað og var komin á vettvang um fimmtán mínútum síðar. Þá voru Suður-Kóreumennirnir komnir upp á veg.

„Þau voru ekki mikið meidd. Einn var bólginn á gagnauga eftir að hafa rekið höfuðið í og annar var skorinn á höndum,“ segir Eva í samtali við Vísi. Hún segir að svo virðist sem bílstjórinn hafi nærri misst bílinn af veginum og kippt svo snöggt í stýrið að bíllinn hafi oltið.

Frá Djúpuvík.Mynd/Hótel Djúpavík
„Húsið splundraðist og svo rann bíllinn aftur á bak niður í fjöru og út í sjó,“ segir Eva sem færði fólkið inn í bíl sinn um leið og hún mætti á vettvang. Biðu þau þar saman eftir lögreglu og sjúkrabíl. Eva segir mikla mildi að bíllinn hafi lent á dekkjunum eftir veltuna.

„Þau voru ótrúlega heppin að sleppa lifandi frá þessu. Ef það hefði bara orðið ein velta og bíllinn lent á hvolfi hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum.“

Eva telur að fólkið, sem var af báðum kynjum, hafi verið á þrítugsaldri. Bíllinn, sem var bílaleigubíll, er gjörónýtur að sögn Evu og ísskáp þurfi að draga í land enda hafi hann flotið upp í sjónum ásamt fleiru úr húsinu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.