Innlent

Fjölmargir rétt fram hjálparhönd

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Yfir tuttugu manns hafa nú aðstoðað og sett sig í samband við einstæða móður sem á dögunum sagði frá því að hún kviði fyrir jólunum. 

Í fréttaskýringaþáttunum Brestum var á dögunum fjallað um fátækt á Íslandi og birtingarmyndir hennar.  Á meðal viðmælenda var Vallý Einarsdóttir, háskólamenntuð kona sem missti vinnuna í sumar og hefur síðan lifað á um fimmtíu þúsund krónum á mánuði. Í þættinum lýsti hún því meðal annars að hún ætti ekki bíl, væri ekki með internet og hlutir eins og leikhúsferðir, sund og bíó væri munaður sem þær mæðgur gætu ekki leyft sér.

Vallý segir að fjöldi fólks hafi sett sig í samband við hana eftir þáttinn og boðist til að hjálpa henni á einn eða annan hátt. 

„Ég er búin að fá helling af skilaboðum sem eru öll jákvæð og uppbyggjandi. Við höfum fengið bíómiða og gjafabréf í leikhús, bónuskort og ýmislegt fleira,“ segir Vallý.

Hún segist vera djúpt snortin yfir viðbrögðunum og að þau hafi komið sér á óvart. Þær mæðgur hafa nú fengið þá hjálp sem þær þurfa. 

„Ég held að þakklæti sé ekki nógu stórt orð til að lýsa því hvernig okkur líður. Þetta er bara ótrúlegt og við erum endalaust þakklátar,“ segir Vallý sem kveðst ekki lengur kvíða fyrir jólunum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×