Fótbolti

Draumur fyrir framherja að spila í þessari deild

Stefán Árni Pálsson skrifar
Framherjinn Aron Jóhannsson er að finna taktinn hjá hollenska úrvalsdeildarliðinu AZ Alkmaar en leikmaðurinn skoraði tvö mörk með liðinu í gær.
Framherjinn Aron Jóhannsson er að finna taktinn hjá hollenska úrvalsdeildarliðinu AZ Alkmaar en leikmaðurinn skoraði tvö mörk með liðinu í gær. nordicphotos/getty
Aron Jóhannsson, leikmaður AZ Alkmaar, fór á kostum í hollensku úrvalsdeildinni í gær en leikmaðurinn skoraði tvö mörk og lagði annað upp í 3-1 sigri á Cambuur. Jóhann Berg Guðmundsson var í byrjunarliði AZ í leiknum en var tekinn af velli tíu mínútum fyrir leikslok.

„Maður getur kannski ekki verið beint óánægður með tvö mörk, eina stoðsendingu og þrjú stig eftir leik,“ segir Aron Jóhannsson en hann gekk í raðir hollenska liðsins í janúar á þessu ári og samdi við félagið til ársins 2017, en hann var áður á mála hjá AGF í Danmörku.

„Það hefur gengið þokkalega hjá mér í deildinni á tímabilinu en maður er ennþá nokkuð á eftir Alfreð [Finnbogasyni],“ segir Aron en Alfreð Finnbogason, leikmaður Heerenveen, hefur verið óstöðvandi í deildinni á þessu tímabili og skorað ellefu mörk.

Gott að taka milliskrefið hér

„Þessi dvöl mín hér í Hollandi hefur verið alveg frábær og mér líður gríðarlega vel hér hjá AZ. Hollenska deildin er að mínu mati besta deildin til að taka þetta milliskref áður en maður reynir fyrir sér á meðal þeirra allra bestu. Hér spila flestöll lið mikinn sóknarbolta og leggja leikinn upp með að spila boltanum mikið og í þeim aðstæðum nær maður að blómstra. Fyrir framherja er algjör draumur að vera í þessari deild.“

AZ Alkmaar er í áttunda sæti hollensku úrvalsdeildarinnar með 16 stig.

Önnur lið sýndu áhuga

„Það er gríðarlegur áhugi á fótboltanum hér í Hollandi og fullt á flestalla velli í hverri viku, sama hvort Ajax er að koma í heimsókn eða eitthvað annað minna lið. Ég er virkilega sáttur með þá ákvörðun mína að færa mig yfir til Hollands frá Danmörku. Ég hafði möguleika á því að fara í önnur stærri lið sem eru í betri deildum en ég vil fyrst og fremst spila. Það er ekkert alltaf best að vera með feitan tékka en sitja alla leiki á bekknum, þá bæta menn sig ekki mikið sem knattspyrnumenn. Það er betra þegar maður er ungur að taka þetta millistig og sætta sig kannski við lægri laun.“

Aron vill einbeita sér að hollensku deildinni í dag og tekur einn leik í einu hjá AZ Alkmaar en vissulega er draumurinn að spila síðar í ensku úrvalsdeildinni eða deild af þeirri stærðargráðu. En með hvaða liði heldur Aron í ensku deildinni?

„Ég vil helst ekki svara því, það getur komið í bakið á manni síðar,“ segir Aron á léttum nótum.

Aron Jóhannsson skoraði sitt fyrsta mark fyrir bandaríska landsliðið gegn Panama í undankeppni HM síðastliðin þriðjudag en hann hefur leikið fjóra landsleiki fyrir Bandaríkin.

Aron Jóhannsson hefur tvöfaldan ríkisborgararétt og valdi í sumar að leika fyrir Bandaríkin í stað þess að spila fyrir íslenska landsliðið. Bandaríkjamenn hafa tryggt sér sæti á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu sem fram fer í Brasilíu næstkomandi sumar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×