Innlent

65% fleiri smyglmál vegna munntóbaks í ár en í fyrra

Þorgils Jónsson skrifar
Tollverðir hafa lagt hald á mun meira munntóbak í ár en í fyrra.
Tollverðir hafa lagt hald á mun meira munntóbak í ár en í fyrra. Fréttablaðið/Anton
Tollverðir lögðu hald á helmingi meira munntóbak á fyrstu níu mánuðum þessa árs en á sama tíma í fyrra og 65% fleiri slík mál komu upp. Þetta kemur fram í tölum sem skrifstofa tollstjóra tók saman að beiðni Fréttablaðsins.

Í ár var lagt hald á rúm 65 kíló í 275 tilfellum, en í fyrra var um að ræða tæp 44 kíló í 167 málum. Tollverðir lögðu einnig hald á um 700 sígarettukarton sem reynt var að smygla til landsins á fyrstu níu mánuðum ársins, sem er um það bil þremur prósentum minna en á sama tíma í fyrra.

Hins vegar fjölgaði einstökum málum um tíu prósent, úr 333 tilfellum í fyrra upp í 369, sem bendir frekar til þess að fleiri hafi verið teknir með magn til einkaneyslu sem farið hefur upp fyrir lögleg viðmið. Flest málanna komu upp við leit á Keflavíkurflugvelli.

Fréttablaðið sagði í vikunni frá því að sígarettusala á fyrstu níu mánuðum ársins hafi dregist saman um tæp tíu prósent frá fyrra ári og sala á neftóbaki, sem oftar en ekki er takið í vör, dróst saman um sjö prósent.

Þessi samdráttur í sölu var settur í samhengi við mikla hækkun á smásöluverði á tóbaki í kjölfar stórhækkunar á tóbaksgjöldum um síðustu áramót. Gjöld á sígarettur hækkuðu um 20% og gjöld á neftóbak tvöfölduðust.

Þótt erfitt sé að fullyrða nokkuð, virðist þessi aukning í munntóbakssmygli og fjölgun á málum vegna sígarettusmygls milli ára haldast í hendur við söluþróun hér á landi.

Ólíklegt verður þó að teljast, miðað við þessar tölur, að smygl vegi að fullu upp á móti samdrætti í sölu hér á landi í ár sem nam 8500 sígarettukartonum og tæpu tonni af neftóbaki.

Þá sagði Ásta Dís Óladóttir, framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar, í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins, að sala á sígarettum hjá þeim hafi dregist saman um 3,5% það sem af er ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×