Innlent

Annþór og Börkur treysta ekki íslenskum matsmönnum

Annþór og Börkur afplána nú sjö og sex ára fangelsisdóma fyrir hrottalegar líkamsárásir. Þeir hafa áfrýjað dómnum til Hæstaréttar. Þar hefur málið ekki verið tekið fyrir.Fréttablaðið/anton
Annþór og Börkur afplána nú sjö og sex ára fangelsisdóma fyrir hrottalegar líkamsárásir. Þeir hafa áfrýjað dómnum til Hæstaréttar. Þar hefur málið ekki verið tekið fyrir.Fréttablaðið/anton

Verjendur Annþórs Kristjáns Karlssonar og Barkar Birgissonar treysta því ekki að íslenskir sérfræðingar gæti hlutlægni í í máli þar sem tvímenningarnir eru sakaðir um líkamsárás á Litla-Hrauni sem leiddi til dauða. Þeir hafa þess vegna farið fram á yfir- og endurmat erlendra sérfræðinga á rannsóknarniðurstöðum þeirra íslensku.



Annþór og Börkur sæta ákæru fyrir að hafa ráðist á samfanga sinn, Sigurð Hólm Sigurðsson, á Litla-Hrauni í maí í fyrra með þeim afleiðingum að milta hans rofnaði og hann lést í kjölfarið. Þeir neita sök.



Við síðustu fyrirtöku málsins lögðu verjendurnir fram þríþætta kröfu: Í fyrsta lagi vilja þeir fá aðgang að öllum málsskjölum, líka þeim sem lögregla telur að hafi ekki þýðingu í málinu.



Í öðru lagi krefjast þeir þess að þýskur réttarmeinafræðingur sem þeir hafa sett sig í samband við vinni endurmat á niðurstöðum Þóru Steffensen, íslensks réttarmeinafræðings sem er búsettur í Bandaríkjunum. Hún var fengin að málinu til að skerpa á niðurstöðum annars þýsks réttarmeinafræðings sem fyrstur rannsakaði lík Sigurðar.



Í þriðja lagi krefjast þeir að erlendur sálfræðingur verði fenginn til að vinna svokallað yfirmat á sálfræðimati Gísla Guðjónssonar og Jóns Friðriks Sigurðssonar, sem rýndu í atferli og samskipti fanga á upptökum úr öryggismyndavélum.



„Við verjendurnir teljum að það sé ekki hægt að tryggja hundrað prósent hlutleysi innlendra sérfræðinga og því sé algjörlega nauðsynlegt að erlendir sérfræðingar verði fengnir til að gera matsskýrslur sem á að byggja á í málinu,“ segir Hólmgeir Elías Flosason, verjandi Annþórs. Svo illa þokkaðir séu sakborningarnir í íslensku samfélagi.



„Þeir eru það vel þekktir á Íslandi og hafa nú ekki almenningsálitið með sér, blessaðir.“ Með þessu séu þeir ekki að draga fagmennsku íslensku sérfræðinganna í efa. „En okkur þykir tryggilegra að þarna komi að erlendir aðilar sem hafi ekki grænan grun um þá sem slíka.“



Saksóknarinn Helgi Magnús Gunnarsson mun í dag taka afstöðu til krafnanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×