Erlent

Borgarstjóri vill banna vændiskaup

Þorgils Jónsson skrifar
Yfirborgarstjórinn í Kaupmannahöfn vill vinna að banni á vændiskaupum.
Yfirborgarstjórinn í Kaupmannahöfn vill vinna að banni á vændiskaupum.
Bann við kaupum á vændi verður meðal kosningamála í borgarstjórnarkosningunum í Kaupmannahöfn í nóvember. Þetta staðfestir, Frank Jensen, yfirborgarstjóri í Kaupmannahöfn og annar tveggja varaformanna Jafnaðarmannaflokksins, í samtali við blaðið Information.

Þessi stefna gengur gegn stefnu stjórnvalda, þar sem jafnaðarmenn eru einnig í forystu, en Jensen segir engan árekstur verða vegna þessa. Bann við vændiskaupum sé yfirlýst stefna Jafnaðarmannaflokksins frá landsfundi árið 2009.

„Þetta er afstaða Jafnaðarmannaflokksins og fulltrúar flokksins hljóta að mega fylgja henni eftir,“ sagði Jensen við Information.

Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra og formaður Jafnaðarmanna, sló slíkar hugmyndir út af borðinu í vetur, eftir ráðleggingar sérfræðinganefndar.

„Það er engin von til þess að uppræta vændi með því að gera vændiskaup ólögleg,“ sagði Thorning-Schmidt við það tilefni. Jensen hyggst þó halda sínu striki ótrauður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×