Innlent

Breytingar á götunni eins og "gamlar lyftingabuxur af Jóni Páli"

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Óánægju  gætir meðal íbúa við og nálægt Hofsvallagötu í Reykjavík með þrengingar á götunni til að rýma fyrir hjólreiðastíg og götuskrauti. Ákvörðun um útfærslu var tekin af embættismönnum en markmiðið er að hægja á umferð.

Nýlega var ráðist í breytingar á Hofsvallagötunni sem sjást í myndskeiði en þær fela í sér að gatan var þrengd og lagðar voru eyjar og hjólreiðastígar. Við þetta fækkar stæðum talsvert við litla hrifningu þeirra sem keyrandi og eiga ekki sitt eigið stæði. Um er að ræða rótgróna götu í Vesturbænum.

Við rákumst á Pál Kristjánsson, lögmann og Vesturbæing, sem efast um réttmæti þessara breytinga.

„Eftir því sem ég hef kynnt mér eiga að koma fánastangir og blómaker og annað slíkt og ég veit ekki hvernig það á að auka umferðaröryggi, ég get ekki séð það," segir Páll.

Hann segir að Hofsvallagatan sé ágætis breiðgata og umferðin við hana hafi gengið þokkalega.

„Hér var nú ekki mikill hraðakstur, svo ég best viti. Þetta eykur bara á þrengsli og óþægindi við aðkomu og nóg er hún fyrir hérna við Melabúð," segir Páll.

Öruggt þarf ekki að vera ljótt

Sólmundur Hólm er íbúi í Vesturbænum.

Hvað finnst þér um þessar breytingar? „Mér finnst þetta fyrst og fremst vera ljótt. Ég veit að þetta var gert til að auka öryggi en öruggt þarf ekki að vera ljótt rétt eins og hollt þarf ekki að vera vont. Þetta minnir mig á bakgrunninn á plötunni Söngvaborg 1 með Siggu Beinteins og Maríu Björk eða þá gamlar lyftingabuxur af Jóni Páli. Sem er flott útaf fyrir sig, en ekki í þessari götu," segir Sólmundur.

Í fyrstu var ákveðið að ráðast í stórar framkvæmdir við götuna en vegna sparnaðar var ákveðið að fresta þeim, samkvæmt upplýsingum fréttastofu.

Þessi breyting er því í raun tímabundin og var teiknuð upp af embættismönnum á umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar. Markmiðið er að hægja á umferð í götunni. Ekki liggur fyrir hver er höfundurinn á bak við litadýrðina á hjólreiðastígnum eða hvort hún sé yfirleitt hjólreiðamönnum til ama.

Borgarfulltrúar segja að viðbrögðin við breytingunum á Hofsvallagötunni séu misjöfn. Viðbrögðin séu jákvæð frá foreldrum sem eiga lítil börn í nágrenninu en ökumenn sem þurfi að fara þarna í gegn séu pirraðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×