Fótbolti

Robin van Persie bætti hollenska markametið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robin van Persie fagnar einu marka sinna í kvöld.
Robin van Persie fagnar einu marka sinna í kvöld. Mynd/AP
Robin van Persie er orðinn markahæsti leikmaður hollenska landsliðsins frá upphafi en hann bætti met Patrick Kluivert í kvöld í 8-1 stórsigri Hollendinga á Ungverjum í undankeppni HM 2014. Hollendingar voru fyrir leikinn búnir að tryggja sér sigur í D-riðlinum og þar með sæti á HM.

Robin van Persie skoraði þrennu í leiknum og hefur þar með skorað 41 mark í 79 landsleikjum fyrir Holland. Patrick Kluivert skoraði á sínum tíma 40 mörk í 79 leikjum og markahlutfall kappanna er því keimlíkt.

Robin van Persie skoraði mörkin sín á 16., 44. og 53. mínútu leiksins en tvö síðari mörkin hans komu eftir stoðsendingar frá Arjen Robben.

Robin van Persie fagnaði því vel þegar hann jafnaði met Patrick Kluivert í fyrri hálfleik en hann hljóp þá beint til Kluivert sem er í þjálfarateymi Louis van Gaal hjá hollenska landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×