Innlent

Panta stórhættulega leysibenda af netinu

Líta sakleysislega út en tækin geta valdið stórskaða, t.d. sjónskaða 
á augnabliki.
Líta sakleysislega út en tækin geta valdið stórskaða, t.d. sjónskaða á augnabliki.
Starfsmenn Tollstjóra og Geislavarna ríkisins hafa á þessu ári gert upptæka allmarga leysi­benda sem eru margfalt aflmeiri en almenn notkun réttlætir. Þeir sem reyna að koma slíkum tækjum inn til landsins eru oft unglingar.

Þorgeir Sigurðsson, fagstjóri hjá Geislavörnum, segir að leysi­bendar sem eru ætlaðir til almennra nota hafi geislun sem er undir einu millivatti (mW). Sérstakt leyfi fyrir sterkari bendum fær venjulega aðeins fagfólk til sértækra nota, enda getur leysir sem er aflmeiri en eitt mW valdið sjónskaða á augnabliki.

Að sögn Þorgeirs er styrkur aflmesta leysibendisins sem reynt hefur verið að koma inn í ­landið 5.000 mW [5W] og var tækið ­stöðvað í tolli. Slíkt tæki er stórhættulegt, enda þarf aðeins endurkastið af geisla af styrk yfir 500 mW til að valda augnskaða, auk hættu á bruna á húð og íkveikjuhættu.

Spurður hverjir það séu helst sem sækjast eftir því að eignast leysibenda sem eru svo öflugir segir Þorgeir það í langflestum tilfellum vera stráka og stelpur undir 18 ára aldri sem hafa aðgang að greiðslukorti.

Á vefsíðu, þaðan sem ­margir af vinsælustu ­leysunum koma, er algengt að styrkur þeirra sé 100-2000 mW. Þeir eru hins vegar ekki merktir framleiðanda og eru oft mun öflugri en þeir eru gefnir upp fyrir að vera. Þorgeir minnir á að þegar hefur notkun þessara tækja valdið fólki skaða hér á landi. ­Augnlæknar fengu 13 ára gamlan dreng til meðferðar á Landspítala í maí með alvarlegan skaða á báðum augum af völdum leysibendis sem var langt undir 100 mW. Dæmin eru fleiri um augnskaða, en önnur alvarleg dæmi eru þar sem börn hafa gert sér það að leik að beina öflugum geisla að ökumönnum flugvéla og bifreiða.

Einar Stefánsson.
Margfalt aflmeiri en lækningatækin

Einar Stefánsson, prófessor og yfirlæknir augndeildar Landspítala, annaðist drenginn sem hlaut augnskaðann í vor en er ekki heimilt að gefa upplýsingar um líðan hans í dag. „Hins vegar get ég sagt að almennt séð valda svona brunar varanlegum skaða. Sem betur fer get ég ekki sagt að þetta sé algengt en maður sér á almannafæri oft græna geisla dansa á húsum. Það eru því allmargir guttar sem eru með svona tæki undir höndum,“ segir Einar en vill ekkert fullyrða um hvort mikið sé af tækjum sem hafa ógnarstyrk eins og þeir sem hafa verið gerðir upptækir.

Hann segir að kannski sé alvarlegast að börn og unglingar líti á tækin sem leikföng, þegar ekkert gæti verið fjær sanni. „Í því felst hættan, og þetta er sami hópurinn og er að leika sér með flugelda í kringum áramót, oft með skelfilegum afleiðingum. Þetta verða foreldrar og aðrir að hafa hugfast.“

Einar segir að leysibendir sem er 5.000 mW sé án nokkurs vafa stórhættulegt tæki og tekur dæmi. „Tækin sem við notum í lækningum til að brenna í augað eru nokkur hundruð millivött. Þannig að tækin sem verið er að smygla hingað eru 10 til 20 sinnum aflmeiri en það sem við notum í lækningaskyni,“ segir Einar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×