Sport

Armstrong vill að allir sitji við sama borð

Armstrong í viðtalinu við Oprah.
Armstrong í viðtalinu við Oprah. vísir/getty
Orðspor hjólreiðakappans Lance Armstrong er í molum eftir að hann viðurkenndi í frægu viðtali við Oprah Winfrey að hafa svindlað.

Hann var eitt sinn einn dáðasti íþróttamaður Bandaríkjanna. Vann bug á krabbameini og sigraði Tour de France hjólreiðakeppnina sjö sinnum. Allir titlarnir voru teknir af honum.

Rannsókn leiddi í ljós skipulagðasta lyfjasvindl sem komist hefur upp um. Armstrong hefur lítið látið fyrir sér síðan en var í viðtali hjá BBC um helgina.

Þar segir Armstrong meðal annars að sumir í hjólreiðaheiminum hafi fengið fríspil á meðan aðrir hafi fengið "dauðadóm". Við það er hann ekki sáttur.

Armstrong sagði einnig að lífið hefði ekki verið neinn dans á rósum síðustu mánuði. Hann hefði tapað miklum peningum og svo hafa fjölmargir farið í mál við hann.

"Ef allir í þessum heimi fá dauðadóm þá er ég til í að fá hann líka. Ef allir fá fríspil þá er ég alveg til í það líka," sagði Armstrong í viðtalinu.

Hann ætlar að halda áfram að vinna með bandaríska lyfjaeftirlitinu og segist vera meira en til í að koma heiðarlega fram ef komið sé fram við hann af heiðarleika.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×