Innlent

Verjandi Strawberries látinn víkja vegna rannsóknarhagsmuna

María Lilja Þrastardóttir skrifar
Stefáni Karli Kristjánssyni, verjanda forsvarmanns kampavínsklúbbsins Strawberries, sem nú sætir rannsókn vegna gruns um vændissölu hefur verið gert, af lögreglu, að segja sig frá málinu vegna rannsóknarhagsmuna.

Fyrir rúmri viku sagði fréttastofa frá umfangsmikilli lögregluaðgerð á Strawberries í Lækjargötu, vegna gruns um vændiskaup og milligöngu um vændi.

Sex menn voru handteknir og færðir í varðhald vegna málsins, en tveimur þeirra hefur nú verið sleppt. Eftir sitja í varðhaldi fjórir karlmenn, eigandi og þrír starfsmenn kampavínsklúbbsins sem úrskurðaðir voru í áframhaldandi gæsluvarðhald af kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu til 8. nóvember.

Nafn lögmannsins, Stefáns Karls, fannst í gögnum tengdum starfsemi staðarins, sem lögregla hefur nú til rannsóknar.

Í lögum um meðferð sakamála segir:

Ekki má skipa eða tilnefna þann verjanda sem gegnt hefur starfi matsmanns eða kann að verða kvaddur til að gefa skýrslu sem vitni í máli ellegar er að öðru leyti svo viðriðinn mál eða aðila að hætta sé á að hann geti ekki gætt hagsmuna sakbornings sem skyldi.

Stefán Karl vildi ekki tjá sig um málið við fréttastofu þegar eftir því var leitað í dag að öðru leiti en að ekkert óeðlilegt væri við að skjólstæðingar hans hefðu nafnið sitt í sínum fórum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×