Fótbolti

Beckham valdi Miami-borg

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Beckham og dóttir hans Harper Beckham.
David Beckham og dóttir hans Harper Beckham. Mynd/NordicPhotos/Getty
David Beckham ætlar að setja á stofn nýtt lið í MLS-deildinni í Bandaríkjunum og Reuters hefur heimildir fyrir því að nýja lið Beckham muni verða gert út frá Miami-borg.

David Beckham spilaði í mörg ár með liði Los Angeles Galaxy á Vesturströndinni en yfirgaf félagið fyrir ári síðan og spilaði síðan síðustu fimm mánuði ferilsins með franska félaginu Paris Saint-Germain.

Beckham var með það inn í risasamningi sínum við Galaxy árið 2007 að hann ætti möguleika á því að verða eigandi liðs í MLS-deildinni.  Hann þarf að borga 25 milljónir dollara eða þrjá milljarða íslenskra króna til þess að fá að koma af stað liði í Miami-borg. Það er mun minni upphæð en venjan er þökk sé fyrirhyggju hans í samningagerð.

Það eru 19 lið í MLS-deildinni í dag en yfirmaður bandarísku deildarinnar hefur sett það sem markmið að fjölga þeim í 24 fyrir 2020 tímabilið. Tuttugasta félagið er á leiðinni því Manchester City og New York Yankees borguðu 100 milljónir dollara fyrir að koma með New York City FC inn í deildina fyrir 2015 tímabilið.

Næst á dagskrá hjá David Beckham er að safna nokkrum hundruð milljónum dollara til að koma nýju Miami fótboltaliði af stað en stefnan hefur verið sett að liðið spili sinn fyrsta leik í MLS-deildinni innan þriggja ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×