Enski boltinn

Jol segir mark Kasami flottara en mark Van Basten

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pajtim Kasami skoraði stórkostlegt mark í 4-1 sigri Fulham á Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í gærkvöldi og fékk meðal annars mikið hrós frá knattspyrnustjóra sínum Martin Jol.

Pajtim Kasami jafnaði metin í 1-1 með marki sínu en hann tók þá langa sendingu niður á kassann og afgreiddi hann síðan viðstöðulaust upp í fjærhornið. Menn fóru strax að líkja markinu við heimsfrægt mark Marco van Basten í úrslitaleik Hollands og Sovétríkjanna á EM í Þýskalandi 1988.

„Þetta var flottara mark en margir gera sér grein fyrir. Hann tók boltann á kassann og smellti honum í hornið. Markið hans Marco var öðruvísi og það er ekki hægt að bera þau saman. Mér fannst samt markið hans vera betra," sagði Martin Jol sem er einmitt Hollendingur eins og Marco van Basten.

Þeir sem vilja bera þessi tvö mörk saman geta séð mark Marco van Basten hér fyrir neðan og séð síðan svipmyndir frá leik Fulham og Crystal Palace með því að smella á tengilinn hér fyrir ofan. Hvort markið er nú flottara?






Fleiri fréttir

Sjá meira


×