Fótbolti

Xabi Alonso mættur eftir bakaðgerð og beinbrot

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Xabi Alonso.
Xabi Alonso. Mynd/AFP
Spænski miðjumaðurinn Xabi Alonso spilar væntanlega sinn fyrsta leik á tímabilinu á morgun þegar Real Madrid tekur á móti Sevilla í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Xabi Alonso hefur ekki spilað með Real Madrid síðan að liðið tapaði bikarúrslitaleiknum á móti Atletico Madrid í maí. Hann hefur verið að glíma við tvennskonar meiðsli á þessum tíma.

Xabi Alonso þurfti fyrst að fara í bakaðgerð í sumar og varð síðan fyrir því að fótbrotna þegar hann var að koma til baka eftir aðgerðina.

„Xabi er klár. Hann er að æfa með okkur og ég býst við að hafa hann á bekknum á morgun og gefa honum nokkrar mínútur," sagði Carlo Ancelotti, þjálfari Real Madrid, við blaðamenn í dag.

Xabi Alonso er 31 árs gamall og lykilmaður á miðju Real Madrid sem og spænska landsliðsins en hann hefur spilað 107 landsleiki. Xabi Alonso hefur spilað í Madrid síðan að hann kom þangað frá Liverpool árið 2009.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×