Innlent

Snjallúrið er loks komið

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Snjallúr að hætti kafteins Kirk og James Bond er komið á markað. Tækið tekur á móti símtölum og státar af innbyggðri myndavél og skrefamæli.

Snjallúrið hefur lengi vel verið fjarlægur draumur. Hingað til höfum við þurft að sætta okkur við að fylgjast með teiknimyndafígúrum eða galvöskum geimkönnuðum tala við úlnliðinn, já og stöku spæjara enda er sjálfur James Bond táknmynd snjallúrsins.

Snjallúrið er nú loks komið á markað — það er reyndar ekki með laserbyssu eins og úr James Bond — en þetta nýja tæki ber vitni um breytta tíma í snjallsíma-umhverfi okkar, þar sem síminn er nú á úlnliðnum.

Galaxy Gear snjallúrið er það fyrsta sinnar tegundar. Hér er um að ræða framlengingu á snjallsímanum en úrið tengist símtækinu með Bluetooth. Þannig er hægt að taka við símtölum og hringja, ásamt því að nálgast upplýsingar um hvaðeina, allt með úrinu.

„Þetta er það sem koma skal,“ segir Harald Pétursson hjá viðskiptaþróun Nova. „Við munum sjá miklu meira af slíkum vörum. Ef þú ert búinn að fjárfesta í flottum Samsung síma þá smellpassar úrið við hann. Þetta er handfrjáls búnaður með góðri myndavél og það er hægt að taka upp stutt og skemmtileg hljóðbrot og myndbönd.“

„Þetta með myndavélina gæti orðið hættulegt, en það er skemmtilegt engu að síður. Þessi óraunveruleiki sem við sjáum í kvikmyndunum um James Bond er nú veruleiki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×