Innlent

"Það er ekkert meira sem hann getur gert mér“

Kristján Hjálmarsson skrifar
Guðný Rós er í viðtali við Nýtt líf sem kom út í dag.
Guðný Rós er í viðtali við Nýtt líf sem kom út í dag.
„Ég er orðin ótrúlega sterk kona í dag og mig langar til að geta lagt þetta að baki mér. Það er ekkert meira sem hann getur gert mér. Hann getur ekki breytt minni upplifun á því sem gerðist,“ segir Guðný Rós Vilhjálmsdóttir,  sem kærði Egil Einarsson og Guðríði Jónsdóttur unnustu hans fyrir nauðgun fyrir tveimur árum, í viðtali við Nýtt líf sem kom út í dag. Þetta er í fyrsta sinn sem Guðný Rós stígur fram og segir frá sinni upplifun á málinu.

„Þó svo að þau hafi ekki verið ákærð, er það mín upplifun að þau hafi nauðgað mér. Það er enginn vafi á því í mínum huga og ég þarf að skila skömminni þangað sem hún á heima.“

Málið, sem fékk mikla fjölmiðlaumfjöllun á sínum tíma, var rannsakað hjá lögreglunni og svo sent ríkissaksóknara sem fyrirskipaði ítarlegri rannsókn. Að endingu felldi saksóknari málið niður. Egill kærði Guðnýju Rós í kjölfarið fyrir rangar sakargiftir en ríkissaksóknari felldi málið niður.

Guðný Rós var stödd í Afríku á þessum tíma. „Ég stóð í stiga þegar var hringt í mig frá Íslandi og mér sagt frá þessu. Ég trúði þessu ekki. Ég öskraði og öskraði og velti því fyrir mér hvort ég hefði virkilega staðið í þessu öllu til einskins. Mér fannst eins og ég hefði verið sigruð í annað sinn,“ segir Guðný Rós í viðtalinu.

Í viðtalinu við Nýtt líf, sem Þóra Tómasdóttir ritstjóri blaðsins tekur, segir Guðný Rós frá því hvernig hún kynntist Agli þegar hún og vinkona hennar sóttu um í fjarþjálfun hjá honum. Nokkru seinna hafi hún og vinkona hennar farið í fyrsta sinn út að skemmta sér í miðbæ Reykjavíkur. Þar hafi hún hitt Guðríði og þær tekið spjall saman. Guðríður hafi kysst hana og síðan boðið henni í eftirpartý. Hún hafi farið með Agli og Guðríði í leigubíl og endað heima hjá þeim. Þar hafi eitt tekið við af öðru og þegar þau hafi klætt sig úr fötunum hafi hún áttað sig á hvert stefndi.

„Mér leið eins og ég væri búin að missa allt vald. Þau voru tvö og ég var ein og ég var búin að reyna að fá hana ofan af þessu. Og svo byrjaði þetta. Ég var leidd inn, hún fór með mig inn á bað og flissaði eitthvað. Hún klæddi sig úr fötunum og síðan upplifði ég að mér hafi bara verið stjórnað,“ segir Guðný Rós í viðtalinu við Nýtt líf. „Þegar atburðurinn sjálfur byrjaði fór ég að gráta. Líkaminn var löngu búinn að slökkva á sér og ég gerði allt sem mér var sagt.“

Í viðtalinu lýsir Guðný Rós mjög ítarlega hennar upplifun af málinu og hvernig henni hafi liðið þegar hún kvaddi Egil og Guðríði. Í kjölfarið hafi hún farið á neyðarmóttöku fyrir fórnarlömb nauðgana.

Guðný Rós segir í viðtalinu að það sé nánast óbærilegt að aðeins önnur hlið málsins hafi komið fram og að það „hafi margfaldað sársauka hennar að lesa rangfærslur um það sem gerðist.“ Fjölmiðlaumræðan hafi hingað til meitt hana, gert hana óörugga og hrædda.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×