Innlent

"Leggja mætti fjármálaráðuneytið niður með sömu röksemdafærslu"

Jóhannes Stefánsson skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson og Katrín Jakobsdóttir
Sigurður Ingi Jóhannsson og Katrín Jakobsdóttir Mynd/ Anton Brink/Einkasafn

Katrín Jakobsdóttir segist hissa á ummælum Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegs-, landbúnaðar- og umhverfisráðherra um að stefnt sé að því að samþætta umhverfismál og að jafnvel komi til greina að leggja niður sérstakt umhverfisráðuneyti.

„Mér finnst þetta tímaskekkja miðað við þá tíma sem við lifum á þar sem stærsta viðfangsefni stjórnmálanna á næstu árum eru umhverfismál, loftslagsbreytingar og áhrif þeirra og hvernig megi sporna við þeim og hvernig megi bregðast við þeim. Þetta eru kannski þeir tímar þar sem ég hefði haldið að væri mest þörf fyrir öflugt umhverfisráðuneyti, því það snýst náttúrulega ekki bara um hvernig við getum haft hverja atvinnugrein fyrir sig heldur er þetta bara stórt mál í alþjóðlegu samhengi."

Katrín segir röksemdafærsluna sem liggi að baki ummælunum tæplega ganga upp. „Við gætum alveg eins sagt að fjármálaráðuneytið ætti bara að vera samþætt inn í öll ráðuneyti með sömu röksemdafærslu. En samt finnst okkur nú betra að hafa einn sem passar upp á ríkiskassann. Ég held að það sé nú ekki vanþörf á því að hafa einn sem passar upp á þennan stóra málaflokk sem umhverfismálin eru," segir Katrín.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.