Innlent

Annþór vildi ekki mæta

Stígur Helgason skrifar
Annþór fékk sjö ára fangelsisdóm í desember. Hann er með fleiri þunga dóma á bakinu.
Annþór fékk sjö ára fangelsisdóm í desember. Hann er með fleiri þunga dóma á bakinu.

Annþór Kristján Karlsson fór fram á það að þurfa ekki að vera viðstaddur þingfestingu líkamsárásarmáls á hendur honum og Berki Birgissyni í Héraðsdómi Suðurlands í dag.

Saksóknari mótmælti þeirri kröfu og henni var því hafnað. Annþór mun þess vegna mæta fyrir dóminn á Selfossi klukkan 13.15 ásamt Berki.

Tvímenningarnir eru ákærðir fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás sem leiddi til dauða Sigurðar Hólm Sigurðssonar, samfanga þeirra á Litla-Hrauni, í maí í fyrra. Krufning leiddi í ljós að milta Sigurðar hafði rofnað.

Hólmgeir Elías Flosason, verjandi Annþórs, segir kröfuna hafa lotið að því að hann fengi umboð til að skila inn skriflegri yfirlýsingu fyrir hönd skjólstæðings síns þar sem afstaða hans til sakarefnisins kæmi fram.

„Væntanlega til að losna við fjölmiðlafárið og havaríið í kringum þetta, án þess að ég geti talað fyrir munn hans,“ segir Hólmgeir um ástæðuna.

„En þetta skapar í sjálfu sér ekkert vandamál, hann bara mætir og tekur afstöðu,“ bætir hann við.

Annþór og Börkur fengu sjö og sex ára fangelsisdóma í desember síðastliðnum fyrir þrjár hrottalegar líkamsárásir sem þeir voru sakfelldir fyrir að hafa framið í sameiningu, fyrir utan eina sem Börkur tók ekki þátt í.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×