Innlent

Krufningu lokið í manndrápsmáli á Egilsstöðum

Húsið þar sem morðið átti sér stað.
Húsið þar sem morðið átti sér stað.
Krufningu á líki Karl Jónssonar er lokið samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Eskifirði. Grunur leikur á að karlmaður á þrítugsaldri hafi orðið Karli að bana á heimili hans í fjölbýlishúsi á Blómvangi aðfaranótt þriðjudagsins síðasta.

Að sögn Jónasar Wilhelmssonar, yfirlögregluþjóns, hefur banamein Karls ekki enn verið staðfest en Vísir greindi frá því fyrr í morgun að hníf hefði verið beitt í árásinni.

Hinn grunaðir var fluttur suður til Reykjavíkur í morgun en hann hefur verið úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald. Ástæðan fyrir því að hann er fluttur í bæinn er einfaldlega sú að engin aðstaða er á Eskifirði eða á Egilsstöðum fyrir gæsluvarðhaldsfanga.

Atburðarrásin er enn nokkuð óskýr. Vísir greindi frá því í gær að maðurinn, sem er 25 ára gamall, hefði ónáðað íbúa í fjölbýlishúsinu á mánudagskvöldinu. Hann á að hafa verið drukkinn og sníkt sígarettur af íbúum.

Að lokum var lögreglan á Egilsstöðum kölluð til sem kom á vettvang og ræddi við manninn. Ekki þótti ástæða til þess að handtaka hann á þeim tímapunkti samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni. Um morguninn tilkynnti nágranni til lögreglu að Karl væri látinn í íbúð sinni. Þá þegar var ljóst að andlát Karls bar að með voveiflegum hætti.

Karl var tæplega sextugur þegar hann lést.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×