Enski boltinn

Tottenham með mikilvægan sigur á Stoke

Stefán Árni Pálsson skrifar
Tottenham vann frábæran sigur, 2-1, á Stoke í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu eftir að liðið hafði lent 1-0 undir í upphafi leiksins. Leikurinn fór fram á Britannia-vellinum í Stoke.

Steven N'Zonzi, leikmaður Stoke, skoraði fyrsta mark leiksins eftir aðeins þriggja mínútna leik og kom heimamönnum  yfir. Clint Dempsey jafnaði síðan metin fimmtán mínútum síðar þegar hann vippaði boltanum í autt markið hjá Stoke eftir misheppnaða hreinsun frá varnarmanni Stoke. Staðan var því 1-1 í hálfleik.

Síðari hálfleikurinn byrjaði ekki vænlega fyrir heimamenn í Stoke en Charlie Adam fékk strax að líta sitt annað gula spjald í leiknum og því var hann fokinn af velli. Stoke var því einu leikmanni færri út leikinn.

Liðin voru bæði í vandræðum með að skapa sér færi næstu mínúturnar en gestirnir náðu að koma boltanum í netið þegar sjö mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Emmanuel Adebayor skoraði þá mark af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá Clint Dempsey.

Niðurstaðan því gríðarlega mikilvægur sigur Tottenham sem berst fyrir fjórða sætinu í deildinni sem gefur keppnisrétt í forkeppni Meistaradeildar Evrópu. Tottenham er sem stendur í fjórða sæti deildarinnar með 69 stig, tveimur stigum á undan Arsenal sem á leik til góða gegn Wigan á þriðjudagskvöldið.

Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Tottenham, kom inná sem varamaður þegar nokkrar mínútur voru eftir af leiknum og náði ekki að setja mark sitt á leikinn.

Staðan í ensku úrvalsdeildinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×