Innlent

Brátt gengið frá sölu á Actavis

Actavis hefur umfangsmikla starfsemi í Hafnarfirði en höfuðstöðvar fyrirtækisins voru fluttar til Sviss árið 2011.
Actavis hefur umfangsmikla starfsemi í Hafnarfirði en höfuðstöðvar fyrirtækisins voru fluttar til Sviss árið 2011. Fréttablaðið/Arnþór
Viðræður um sölu á Actavis til bandaríska lyfjafyrirtækisins Watson eru langt komnar. Samkvæmt frétt Reuters um málið er ráðgert að tilkynnt verði um kaupin í lok þessa mánaðar.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hafa viðræðurnar staðið yfir um nokkra hríð en stærsti eigandi Actavis er Björgólfur Thor Björgólfsson.

Í frétt Reuters segir að Watson vinni nú að því að afla sér lánsfjár upp á 6 milljarða Bandaríkjadala, jafnvirði rúmra 760 milljarða króna, til að ganga frá kaupunum. Þá hefur Reuters eftir heimildum að Watson muni ekki eiga í teljandi vandræðum með að ganga frá fjármögnun kaupanna.

Loks greinir Reuters frá því að reiknað sé með að af þessum 6 milljörðum dala verði 2 milljarðar í formi langtímalána en 4 milljarðar í formi brúarláns og skuldabréfs. Watson er bandarískt samheitalyfjafyrirtæki sem er eitt hið stærsta sinnar tegundar í heimi. Einn af æðstu stjórnendum fyrirtækisins er Sigurður Óli Ólafsson sem var forstjóri Actavis á árabilinu 2008 til 2010.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×