Innlent

Ellefu prósent telja barn sitt hafa orðið fyrir einelti

Boði Logason skrifar
Mynd tengist frétt ekki beint
Mynd tengist frétt ekki beint
Ellefu prósent foreldra grunnskólabarna í Reykjavík telja að barn sitt hafi orðið fyrir einelti síðasta árið. Þetta kemur fram í könnun sem gerð var á meðal foreldra grunnskólabarna í Reykjavík í febrúar síðastliðnum. Það er þó lækkun frá því í fyrra en þá töldu sextán prósent foreldra barn sitt hafa orðið fyrir einelti. Í könnuninni kemur einnig fram að 84 prósent foreldra eru ánægðir með skóla barns síns og hefur ánægjan ekki mælst meiri frá árinu 2002.

Fleiri foreldrar eru óánægðir með aðgang nemenda að tölvum en ánægja þeirra fer úr 58 prósent árið 2011 í 43 prósent í ár. „Eins mælist minni ánægja meðal foreldra með skólamáltíðir; hlutfall ánægðra foreldra fer úr 68% á árinu 2010 í 54% nú. Samhliða fækkar þeim foreldrum sem finnst verð á skólamáltíðum sanngjarnt, þeir eru nú 63% en voru 89% á árinu 2010," segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Þetta er í sjöunda sinn að slík foreldrakönnun er gerð í grunnskólum Reykjavíkur, í úrtaki voru 4.629 foreldrar og var svarhlutfallið 71%. Niðurstöðurnar voru kynntar í skóla- og frístundaráði í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×