Innlent

Sakar ráðherra um aumingjavæða sjávarútveginn

Formaður LÍÚ sakaði sjávarútvegsráðherra um að eyðileggja og aumingjavæða sjávarútveginn með nýjum frumvörpum um fiskveiðistjórnun á hádegisfundi í dag. Ráðherra svaraði fullum hálsi.

Það var félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga sem stóð að fundinum á Grand Hótel í dag. Þar var hart tekist á um áhrif nýrra kvótafrumvarpa fyrir landsbyggðina en í pallborði að loknum framsögum sagði formaður LÍÚ að veiðigjaldsfrumvarpið vera hættulegasta frumvarp sem lagt hefur verið fram í þinginu í áratugi. Hans útgerðarfyrirtæki, Gullberg ehf á Seyðisfirði, geti ekki staðið undir hærri veiðigjöldum eins og boðuð væru í frumvörpunum.

„Það er mjög erfitt að standa fyrir framan sjómenn sem eru búnir að starfa hjá fyrirtækinu í 44 ár og segja við þá: „Því miður drengir mínir þið verðið ekki í vinnu hjá okkur eftir 1.september,"" sagði Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ.

Adolf og Steingrímur tókust síðan hart á um efni frumvarpsins.

„Málið er það að við erum að tala um það hvað er sanngjarnt og eðlilegt og það sem þú ert að setja fram er ekki sanngjarnt og eðlilegt," sagði Adolf.

„Tölurnar sem þið eruð með og grunnurinn sem þið eruð að vinna á í þessu veiðigjaldsfrumvarpi, mun eyðileggja íslenskan sjávarútveg eftir 2032 með banni á framsali og öðru," sagði Adolf. „Þið takið út alla hagkvæmni og hvata. Þið viljið gera okkur alla að leiguliðum og aumingjum."

„Við ættum kannski aðeins að tala um af hverju skuldirnar eru svona miklar, og hvernig kerfi sem ekki má anda á hefur reynst í þeim skilningi, var það ekki að hluta til hvernig það kerfi virkaði þegar þið voruð að kaupa aðra út úr greininni, það er það sem ég var að tala um," sagði Steingrímur J. Sigfússon.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×