Innlent

Mæðgin handtekin fyrir kannabisræktun

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði kannabisræktun í einbýlishúsi í gær. Við húsleit var lagt hald á um 35 kannabisplöntur og tæplega 700 grömm af þurrkuðum kannabisefnum.

Mæðgin voru í kjölfarið handtekin en við yfirheyrslu hjá lögreglu játaði sonurinn, sem er á þrítugsaldri, aðild sína að málinu.

Upp komst um plönturnar eftir að tilkynnt var um marijúanalykt í hverfinu.

„Eftir að búið var að þrengja hringinn var bankað upp á í áðurnefndu húsi í þessu sama hverfi. Þar urðu fyrir svörum íbúar sem voru sakleysið uppmálað og könnuðust hreint ekkert við neina kannabisræktun. Augljóst var á látbragði þeirra að hér var eitthvað mjög gruggugt á seyði enda kom það á daginn," segir í tilkynningu frá lögreglu.

Þá hafði sonurinn á heimilinu læst sig inni í þeim hluta hússins þar sem kannabisræktunin fór fram. Hann reyndi síðan að komast undan á hlaupum.

„Kauði var hins vegar handtekinn hið snarasta en svo fór að móðir hans fylgdi með á lögreglustöðina. Hún var allt annað en sátt við afskipti lögreglunnar en konan var mjög æst á vettvangi og sýndi mikinn mótþróa. Hún var því einnig færð í handjárn og flutt á lögreglustöð til yfirheyrslu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×